Fimmtudagur 22. maí 2003

142. tbl. 7. árg.

Samtök iðnaðarins eru dálítið furðulegur félagsskapur, að minnsta kosti utan frá séð. Vera kann að einhver góð skýring sé til á því misræmi sem er annars vegar á skoðunum félagsmanna á aðild Íslands að Evrópusambandinu og hins vegar því hvernig starfsmenn samtakanna beita sér og samtökunum í umræðum um það mál, en skýringin á misræminu blasir að minnsta kosti ekki við hverjum sem er. Samtök iðnaðarins eru að verulegu leyti rekin fyrir skattfé og skatttekjur samtakanna skýra að verulegu leyti þann mikla fjölda sem starfar á skrifstofu þeirra. Drjúgur hluti þessara starfsmanna virðist hafa þann starfa helstan að beita sér fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en enginn starfsmaður sér nokkurn tímann ástæðu til að efast – ekki opinberlega að minnsta kosti – um ágæti þessarar aðildar. Samtökunum er beitt af talsverðum krafti fyrir þessum málstað, meðal annars með “frétta“tilkynningum sem reglulega eru sendar út um málefnið.

Efni tilkynninganna er oftast það að stuðningur við evruna eða stuðningur við aðild að Evrópusambandinu fari vaxandi í einhverju þeirra landa sem ekki hefur komið sér fyrir á fyrsta farrými í sögulegri ferð Evrópuhraðlestarinnar. Fjalli tilkynningarnar ekki um vinsældir evru eða Evrópusambands í einhverju tilteknu landi snúast þær um kosti þess fyrir Ísland að gerast aðili. Efasemdir um aðild eða fréttir af neikvæðum viðhorfum til Evrópusamrunans eiga ekki greiða leið inn í tilkynningar Samtaka iðnaðarins. Þannig fréttu starfsmenn samtakanna af því þegar nýlega var gerð könnun á stuðningi Norðmanna við aðild að ESB og í ljós kom að stuðningur fór vaxandi og að tæpur helmingur var hlynntur aðild. Þeir fréttu hins vegar ekki af því þegar nýleg könnun sýndi að andstaða við evruna fór vaxandi í Bretlandi og ríflega tvöfalt fleiri voru andvígir evru en fylgjandi.

Nú er vitaskuld ekkert við það að athuga að frjáls félagasamtök taki afstöðu og beiti sér fyrir henni. Um Samtök iðnaðarins gegnir hins vegar töluvert öðru máli en um flestan annan félagsskap, þar sem þessi samtök ganga fyrir skatttekjum. En það sem er eiginlega sérkennilegra er að félagsmenn samtakanna skuli sætta sig við að þeim sé beitt með þessum hætti, þar sem aðeins þriðjungur félagsmanna er hlynntur aðild að Evrópusambandinu en tæpur helmingur er henni andvígur, samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir samtökin fyrr á þessu ári. Hvernig má það vera að meirihluti félagsmanna samtaka sé tiltekinnar skoðunar en samtökunum sé þrátt fyrir það beitt til að sannfæra landsmenn um það að þveröfug skoðun sé sú eina rétta?