Þ
Úrræðagóðir ferðalangar sjá við salernisskorti í Námaskarði, en hvenær skyldi það verða talið til mannréttinda að hið opinbera útvegi slík tæki í óbyggðum landsins? |
að er alltaf verið að heimta ný útgjöld. Það þarf bætta aðstöðu hér, betri útbúnað þar og á báðum stöðum er verið að brjóta réttindi einhvers. Meiri þjónustu, meiri þjónustu, meiri þjónustu. Þetta er krafa dagsins, ítrekuð í fréttatíma eftir fréttatíma. „Ég vil meiri þjónustu. Og ekki á minn kostnað takk fyrir. Já og svo þarf að hækka verulega laun þeirra sem starfa við þjónustuna. Nei, ég vil ekki taka þátt í að borga það heldur. Af hverju vil ég ekkert borga sjálfur? Ha? Ég? Ja þetta eru sko mannréttindi mín. Og svo er þetta allt svo arðbært fyrir ríkið til lengri tíma litið.“
Í nýjasta tölublaði Sveitarstjórnarmála er talað við Sigbjörn Gunnarsson sveitarstjóra í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit. Sigbjörn nefnir dæmi um mannvirki sem fæstir vilja vera án til lengdar og segir að þau séu ósjaldan færð í tal við sig: „Ég hef oft verið spurður að því af hverju ekki séu fleiri snyrtingar fyrir almenning í Mývatnssveit. Af hverju séu engin klósett við Dimmuborgir eða klósett við hverina í Námaskarði. Það er lítið mál að byggja þau en það er talsvert mál að fyrir fámennt byggðarlag að reka klósett fyrir fleiri þúsundir ferðamanna. Það þarf að ráða starfsfólk til þess að tæma klósettin, hreinsa þau og þrífa og sjá til þess að nauðsynlegustu hreinlætisáhöld séu til staðar. Slíkt er okkur hreinlega ofviða. Ég segi fyrst og fremst frá þessu sem litlu dæmi um hvað fólki finnst sjálfsagt að gert sé en gerir sér ekki grein fyrir þeim kostnaði sem liggur að baki því að veita þjónustu sem auðvitað má segja að sé bæði sjálfsögð og nauðsynleg.“
Já, eflaust má frá einhverju sjónarmiði segja að það sé nauðsynlegt að það sé kamar í Námaskarði. Hvað er ekki nauðsynlegt, svo eitt útvatnað orð enn sé notað? En eins og sveitarstjórinn lýsir þá er mikill kostnaður sem hlýst af ekki merkilegri stofnun en opinberu salerni við Dimmuborgir. Og þann kostnað þurfa einhverjir að greiða þó ekki sé víst að allir hugsi út í það áður en þeir hefja kröfugerð á hendur Mývetningum. Og þegar nokkur salerni eru svo kostnaðarsöm sem raun ber vitni, hvað mun þá um allt það sem heimtað er í meðalfréttatíma ljósvakamiðlanna og það án þess að nokkur virðist þora að andmæla?