V
Það er engin leið að spá fyrir um úrslit í kapphlaupi fyrirtækja á markaði og samkeppnisyfirvöld ættu hvorki að reyna að spá í úrslitin né hafa áhrif á þau. |
erslunin Vísir á Blönduósi hætti rekstri um mánaðamótin og er Kaupfélag Húnvetninga, sem raunar er orðið að hlutafélagi, þar með eina matvöruverslun staðarins. Kaupfélag Húnvetninga keypti Vísi og í ljósi reynslunnar má furðu sæta að samkeppnisyfirvöld skuli ekki hafa gert athugasemd við „markaðsráðandi stöðu“ Kaupfélags Húnvetninga á Blönduósi. Ef marka má úrskurði Samkeppnisstofnunar um samruna fyrirtækja og fækkun þeirra á markaði má ætla að stofnunin telji að nú hafi Kaupfélagið öll ráð bæjarbúa í hendi sér, því á þeim markaði sem skilgreina má „matvörumarkað Blönduóss“ er kaupfélagið nú eitt um hituna. Með því að skilgreina markaði þröngt má nefnilega fá út hverja þá niðurstöðu sem samkeppnisyfirvöldum þóknast, og það gera þau gjarna til að hafa afskipti af eðlilegri þróun í viðskiptum á markaði.
Staðreyndin er þó vitaskuld sú að „matvörumarkaður Blönduóss“ er ekki markaðsskilgreining sem máli skiptir frekar en ýmsar aðrar alltof þröngar skilgreiningar markaðar. Íbúar Blönduóss eru ekkert ofurseldir kaupfélaginu, þeir geta til dæmis verslað í öðrum bæjarfélögum. Ætli kaupfélagið að smyrja duglega á vöruverð munu íbúarnir versla annars staðar, ýmist með því að sækja vörurnar sjálfir eða láta senda sér þær. Niðurstaðan af óhóflegri álagningu, það er að segja álagningu sem markaðurinn þolir ekki, gæti líka verið sú að aftur skapaðist tækifæri fyrir samkeppni. Nauðsynleg forsenda þess að markaðsöflin séu virk er ekki að mikill fjöldi keppi sín á milli hverju sinni, heldur miklu frekar að engar hömlur séu á samkeppni. Ef ríkið myndi til dæmis banna öðrum en kaupfélaginu á staðnum að reka verslun, þá væri allt önnur staða komin upp, enda er skortur á samkeppni og einokun jafnan afleiðing afskipta ríkisins en ekki afleiðing af markaðsstarfsemi.
Æ fleiri eru farnir að átta sig á að samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa gengið allt of langt í úrskurðum sínum og hafa skaðað atvinnulífið. Þannig hafa Samtök atvinnulífsins ályktað að þau telji það „ekki vera hlutverk Samkeppnisstofnunar að stýra uppbyggingu atvinnulífsins“. Í nýlegu viðtali við Morgunblaðið sagði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, það misskilning embættismanna „að halda að opinbert embætti geti teiknað það upp hvort á tilteknu sviði starfi eitt fyrirtæki, tvö eða tuttugu.“ Hann sagði einnig að spádómar Samkeppnisstofnunar um framvinduna á markaðnum á ákveðnum sviðum hefðu ekki gengið eftir, þar stæði ekki steinn yfir steini. Og í ljósi úrskurða Samkeppnisstofnunar þarf ekki að undra að Ari telur að starfsmenn stofnunarinnar séu í fremur losaralegum tengslum við veruleikann, eða eins og hann orðar það: „Ef menn halda að þeir geti á frjálsum markaði stýrt því hvort fyrirtækin verði fleiri eða færri eða hvernig mál æxlast í síkviku umhverfi eru þeir einfaldlega haldnir alvarlegum misskilningi um stöðu sína og getu til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt.“