Miðvikudagur 18. desember 2002

352. tbl. 6. árg.

Ídesember streymir fólk í verslanir og kaupir ekki hvað síst bækur til að gefa sínum nánustu. Á síðustu árum hafa eigendur stórmarkaða reynt að ná þessu fólki til sín með því að bjóða bækur til sölu, sem þeir gera þó ekki á öðrum árstímum. Og þar sem stórmarkaðirnir eru ekki alltaf að sækjast eftir hagnaðinum af bókasölunni sjálfri heldur ekki síður einfaldlega að reyna að fá fólk til að gera jólainnkaupin hjá sér, gátu þeir leyft sér að bjóða bækurnar á lægra verði en hinir hefðbundnu bóksalar gerðu áður. Hefur það á síðustu árum orðið til þess að þær bækur, sem mest seljast, hafa lækkað í verði og það skilað neytendum ávinningi en orðið hefðbundnum bóksölum þungt högg. Reyndar er það orðið svo að hinar hefðbundnu bókaverslanir hafa einnig lækkað verð sitt og hvort sem menn trúa því nú eða ekki þá kom til dæmis fram í nýlegri verðkönnun Morgunblaðsins, sem náði til helstu bóka sem seldar eru nú fyrir jólin, að hin gamalgróna Bókabúð Lárusar Blöndal, sem nú er rekin í Listhúsinu í Laugardal, bauð í 14 tilvikum lægra verð en bæði verslanirnar Bónus og Nettó, sem þó eru reknar sem sérstakar „lágvöruverslanir“.

Oft er því haldið fram að „stórmarkaðirnir [séu] að drepa bókabúðirnar“. En þó vissulega hafi innrás stórmarkaðanna á jólabókamarkaðinn orðið til þess að bóksalar hafa misst spón úr aski sínum, þá er vafasamt að segja stórmarkaðina drepa bóksalana. Stórmarkaðirnir gera ekkert sem þeim er ekki heimilt, þeir eru bara að bjóða vöru til sölu og svo er það undir hverjum og einum komið hvort hann gengur til viðskiptanna eða ekki. Ef að bóksala stórmarkaða verður til þess að bókabúðir hverfa úr bæjarlífinu, nú þá verður það vegna þess að ekki hafa nægilega margir haldið tryggð við bókabúðirnar. Ef að þeir, sem segjast myndu sakna bókabúðanna, eru reiðubúnir að versla þar þó bækur séu í sumum tilfellum boðnar ódýrari annars staðar, þá munu bókabúðirnar lifa áfram. Annars ekki. Stórmarkaðirnir drepa ekki bókabúðirnar. Það eru gamlir viðskiptavinir bókabúðanna sem kannski gera það með því að hætta að versla þar. Hér er því skýrt dæmi um þróun sem neytendur hafa mikið að segja um, og það er einmitt þannig sem það á að vera.

Oft er gerð krafa um að einhverju sé komið á fót eða haldið við með opinberu fé og því þá haldið fram að skattgreiðendur vilji í raun leggja opinbert fé til málefnisins. Í raun er þó eflaust oftast verið að láta ríki eða sveitarfélög eyða því sem skattgreiðendur vildu ekki leggja af mörkum. Skýrt dæmi um þetta er tónlistarhúsið sem Björn Bjarnason og fleiri vilja reisa fyrir opinbert fé, en sérstök samtök hafa í aldarfjórðung safnað framlögum fólks til byggingarinnar og ekki enn náð nægu til að taka grunninn. Í því dæmi er einstaklega augljóst hvað fólk er tilbúið að borga til byggingarinnar og hreinasta ósvífni að ætlast í alvöru til að ríki og Reykjavíkurborg komi að og borgi það sem upp á vantar. Sem er næstum allt.

„En það er ekki að marka þó fólk borgi ekki í slíkar safnanir. Fólk er búið að borga skatta og vill að það dugi fyrir þessum brýnu verkefnum“ segja sumir og vissulega er nokkuð til í því. Ef skattar væru lægri og fólk hefði meira fé til ráðstöfunar hefði eflaust meira fé safnast til tónlistarhússbyggingarinnar og annarra slíkra verkefna. Og það er einmitt það sem mestu máli skiptir. Ef ríkið og sveitarfélög hætta stuðningi við öll gæluverkefnin; menningarhúsin, íþróttavellina, sundhallirnar og hvað sem nöfnum tjáir að nefna, og myndu lækka skatta sem því næmi, þá hefði fólk miklu meira fé handa á milli, auk þess sem vörur myndu lækka í verði. Þá gæti fólk sjálft ákveðið í hvað það ver sínu fé. Þeir sem vilja horfa á handboltaleik myndu borga eðlilegt verð inn á leikinn. Þeir sem vilja sækja tónleika og leiksýningar myndu gera það á eigin kostnað. Þeir sem vilja versla í dýrum sérverslunum myndu gera það. Og þeir sem ekki hafa efni á neinu slíku í dag, þeir hefðu meira milli handa til að verða sér úti um nauðþurftir.

Eitthvað myndi hverfa sem rekið er í dag. Annað kæmi í staðinn eins og jafnan. En nú myndi það lifa sem nægilega margir styðja af fúsum og frjálsum vilja, ekki það sem þeir frekustu geta fengið ístöðuminnstu stjórnmálamennina til að styrkja mest.