Ekki kann Vefþjóðviljinn nú við að halda því fram að Einar Kárason rithöfundur sé í gerðinni óheiðarlegri en næsti maður. En samt myndi blaðið líklega hugsa sig tvisvar um áður en það keypti af honum víxil. Eða er það kannski óþarfa tortryggni? Ja það er nú það. Að minnsta kosti benda tvær nýlegar greinar Einars í Morgunblaðinu til þess að hann sé nú ekki meira en svo sannfærður um að mönnum beri að standa við þau heit sem þeir hafa gefið. Einar Kárason hefur á síðustu dögum skrifað tvær greinar þess efnis að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri geti sem best látið borgarmálin lönd og leið og hellt sér út í landsmálabaráttuna, þrátt fyrir skýr og ítrekuð orð sín um hið gagnstæða, vegna þess að það hafi bara verið óeðlilegt að spyrja hana um framtíðaráform sín fyrir borgarstjórnarkosningarnar fyrir fjórum mánuðum. Það hafi bara verið trikk andstæðinganna og vinstri menn séu að gera sig að fíflum með því að ímynda sér að Ingibjörg Sólrún sé bundin af þeim loforðum sem snjallara hefði verið af henni að gefa ekki.
„Já Einari líst ekki á þetta. Menn eru bara eftir kosningar farnir að gera eitthvert mál úr þeim svörum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf fyrir kosningar. Heyr á endemi!“ |
Til er fólk sem íslenskum vinstri mönnum er afar illa við. Gruni þeir nokkurn um að tilheyra þessum hópi fólks þá er þeim strax í nöp við þann mann. Sá maður má helst ekki fá starf. Setji sá maður fram skoðun þá eru þeir á móti henni. Það sem þessi maður segir eða gerir, það er slæmt og sagt og gert af illum hvötum. Þessi maður er væntanlega þátttakandi í víðtæku samsæri með félögum sínum sem ekki eru skárri. Eigi þessi maður í deilum við einhvern annan mann, þá fylkja vinstri menn sér strax um hinn. Andstæðingur þessa manns getur ekki verið slæmur, hann getur aðeins verið fórnarlamb ofsókna hins vonda. – Og hvaða hópur er þetta nú? Morðingjar? Barnaníðingar? Ofbeldismenn? Svindlarar? Fjölkvænismenn? Nei börnin góð, þetta er nú uggvænlegri hópur. Þetta eru svokallaðir „sjálfstæðismenn“, og vari nú hver sig sem betur getur.
Og þegar þetta er haft í huga þá er kannski ekki furða að Einar Kárason telji Ingibjörgu Sólrúnu með öllu óbundna af þeim orðum sem hún hafði látlaust við borgarbúa í vor. Honum finnst ekki koma til greina að Ingibjörg Sólrún gegni áfram starfi sínu í ráðhúsinu „vegna einhverra loforða sem sjálfstæðismenn telja sig eiga heimtingu á að verði efnd.“. Það hafi nefnilega sko bara „verið leikflétta sjálfstæðismanna að þráspyrja borgarstjórann um þetta málefni fyrir kosningar, og gera svo svör hennar að meginmáli stjórnmálabaráttunnar að kosningum loknum“. – Já Einari líst ekki á þetta. Menn eru bara eftir kosningar farnir að gera eitthvert mál úr þeim svörum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf fyrir kosningar. Heyr á endemi!
Gefum okkur nú, umræðunnar vegna, að það sé rétt sem Einar gefur sér, að það hafi verið spurningar frá hinum voðalega hópi, „sjálfstæðismönnum“, sem hafi orðið til þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði borgarbúum að héldi R-listinn meirihlutanum þá yrði hún borgarstjóri nema þá að hún hrykki upp af, svo hennar eigin orð séu notuð. Þó svo væri, hvað þá með það? Þeir fjölmörgu borgarbúar sem kusu R-listann vegna þessa fyrirheits hennar, eiga þeir bara að éta það sem úti frýs ef það hafa verið „sjálfstæðismenn“ sem urðu til þess að þetta fyrirheit var gefið? Hver er eiginlega boðskapur Einars Kárasonar og félaga til þessara borgarbúa? „Nei því miður vinir, Jón Steinar Gunnlaugsson skildi Ingibjörgu Sólrúnu eins og þið gerðuð og þar með er ekkert að marka þetta. Sorrí. Allt í plati. Ingibjörg hefði ekki átt að lofa ykkur þessu svo hún þarf ekkert að standa við það. Já og það voru einhverjir sjálfstæðismenn sem spurðu hana út í þetta. Þannig er þetta sko. En þið fáið nú Alfreð í staðinn. Já einmitt, þennan hjá Sölunefndinni. Ekki allir sáttir bara, ha?“
Æ nei. Eins og áður hefur verið bent á væri frekar ástæða til fagna því ef Ingibjörg Sólrún yfirgæfi R-listann og reyndi fyrir sér í landsmálum. En það breytir ekki því, að með því gengi hún klárlega á bak þeirra orða sem hún svo oft hafði uppi við kjósendur fyrir örfáum vikum. Og það voru ekki einhverjir vondir„sjálfstæðismenn“ sem nörruðu þar út úr henni loforð. Sjálf lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stöðu sinni með þessum látlausu orðum í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 19. maí síðastliðinn: „Ég hef umtalsverðan stuðning meðal borgarbúa, meiri stuðning en Reykjavíkurlistinn og meiri stuðning en Alfreð Þorsteinsson, með allri virðingu fyrir honum.“ Þeir sem taka þessa hógværu lýsingu Ingibjargar Sólrúnar trúanlega, hvernig geta þeir látið eins og það hafi bara verið einhverjir illgjarnir „sjálfstæðismenn“ sem spurðu hvort menn væru að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eða ekki? Ingibjörg Sólrún taldi sjálf að hún nyti umtalsvert meiri stuðnings en R-listinn og það er alveg ljóst hvers vegna hún sjálf taldi nauðsynlegt að fullvissa kjósendur um að þeir væru að kjósa hana en ekki R-listann eða Alfreð Þorsteinsson. Með allri virðingu fyrir honum.