Það þurfti nú engan Nostradamus til að sjá þetta fyrir. Eins og margir höfðu spáð þá á nú að leggja svo kallaðan Nice-samning aftur undir þjóðaratkvæði á Írlandi. Samningur þessi er ætlaður til að greiða fyrir næsta skrefi í þróun Evrópusambandsins og hefur verið staðfestur í öllum ríkjum sambandsins nema því eina sem bar hann undir atkvæði íbúa sinna. Írar felldu samning þennan í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári og því er hann einfaldlega borinn upp aftur núna, og svo aftur og aftur þangað til Írar hætta að nenna að þvælast fyrir Evrópusinnunum sem vilja hafa öll ráð þjóðanna í hendi sér.
Ef nokkuð lýtur sínum eigin lögmálum þá er það Evrópusambandið. Vilji almennra borgara skiptir þar nákvæmlega engu máli, það eru skriffinnarnir í Brussel og höfðingjarnir á þeirra vegum sem ráða ferðinni og það svo gersamlega að slíks finnast vart dæmi. Skriffinnar sem enginn hefur kosið, fáir vita hvað heita og enginn hvernig lítur út, fara í raun með öll völd sem máli skipta og undan þeirra rifjum renna reglur, tilskipanir og þróunaráætlanir sem svo er ætlast til að venjulegt fólk fari eftir. Og „þróunina“ má aldrei stöðva. Enda er hún ákveðin með samræðum „færustu sérfræðinga í Evrópurétti“; það er að segja manna sem sitja daginn út og inn á annarra kostnað og þróa hugmyndaheim sinn og finna leiðir til að lima þjóðirnar í hann.
Ef tillaga um aðild að Evrópusambandi er felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er kosið aftur. Ef aðild að einstökum sáttmála, svo sem Maastricht-sáttmálanum eða Nice-sáttmálanum, er felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er kosið aftur. Ef aðild að myntsamstarfi er felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er kosið aftur. En ef slík tillaga er samþykkt, hvað þá? Þá er aldrei kosið aftur. Þegar menn einu sinni eru komnir inn í Evrópusambandið, þá er engin leið út. Staðreyndin um Evrópusambandið er einfaldlega sú að það sleppir aldrei neinu sem það einu sinni hefur komist yfir. Ef Íslendingar, svo dæmi sé tekið, myndu einu sinni álpast þangað inn, svo sem í einhverri misskilningstilraun til að jafna út einhverja tímabundna sveiflu einhverrar hagstærðar eða í þeirri hugmynd að þannig fengju þeir kannski lægra verð á skarfakáli, þá yrði aldrei aftur snúið. Hið sjálfstæða íslenska ríki yrði aldrei framar til.
Og enn eru til menn sem endilega vilja koma Íslandi inn í Evrópusambandið. „Til þess að styrkja fullveldið.“