Hér hafa menn heldur betur áttað sig á ókostum einkabílsins. |
Ef marka má nýjar sjónvarpsauglýsingar frá Strætó bs er vart hægt að verða fyrir meira óláni en að aka um á eigin bíl. Bílinn er nefnilega miskunnarlaust dreginn á brott. Hann verður bensínlaus. Og þegar bensín er komið á hann fær eigandinn gjarnan sekt fyrir að aka fullur eða of hratt. Í nýjum blaðaauglýsingum er svo gefið til kynna að strætó mengi minna en þessi ómögulegi einkabíll.
Nú er kunnara en frá þurfi að segja að flestir virðast taka hinn meinta hræðilega einkabíl fram yfir strætó. Raunar er það svo að kalla mætti bílinn almenningssamgöngur því hann er svo almennt notaður en strætó er hins vegar réttnefndur einkabíll því það er hending ef bílstjórinn er ekki einn í vagninum. Engu að síður er ýmislegt fleira gert til að þröngva hinum almenna manni til að nota strætisvagnana en að auglýsa ágæti þeirra. Rekstur strætisvagnanna er til dæmis niðurgreiddur um mörg hundruð milljónir á ári. Reykjavíkurborg leggur til dæmis um 700 milljónir króna af fé almennings í rekstur strætó á hverju ári.
Hið opinbera reynir einnig að gera eigendum bíla erfitt fyrir með ýmsum hætti. Skattar eru ekki aðeins háir á bílana sjálfa heldur fá menn að kenna á því í hvert sinn sem eldsneyti er bætt á tankinn. Þegar allt er talið greiða bíleigendur um 30 milljarða króna í skatta á ári. Bíleigendur fá aðeins brot að þessum sköttum til baka í bættri þjónustu, það er að segja með viðhaldi vega.
Og svo er það mengunin. Nýting strætisvagnanna er svo léleg að farþegi í strætó mengar í mörgum tilfellum meira en notandi einkabílsins.