Ríkissjónvarpið sýnir nú þætti sem nefnast samheitinu „Maður er nefndur“. Á dögunum var í slíkum þætti rætt við Jón G. Tómasson hæstaréttarlögmann og fyrrverandi borgarritara í Reykjavík og fjallaði hann meðal annars um störf sín að sveitarstjórnarmálum. Jón hafði eitt sinn verið sveitarstjóri Seltjarnarneshrepps og sagði frá því er hann hugðist flytja bankaviðskipti hreppsins til Landsbankans. Hafði hann gengið á fund Péturs Benediktssonar bankastjóra með það erindi og látið þess getið að hreppurinn þyrfti að fá lán í bankanum. Sagði Jón svo frá að því hefði Pétur svarað svo, að það væri reynsla sín að á eftir góðtemplurum væru sveitarstjórnir þeir allra verstu skuldarar sem nokkur banki gæti fengið í viðskipti.
Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort Pétur hefur meint það bókstaflega að templarar væru allra manna skuldseigastir – varla hafa þeir sífellt verið að slá „fyrir einni“. En hitt er sennilegt, að sveitarstjórnir hafi skuldað og skuldað. Að minnsta kosti er slíkt trúlegt þegar horft er til þeirra sveitarstjórna sem nú sitja. Fyrir nokkru var staða mála til dæmis sú, að heildarskuldir íslenskra sveitarfélaga námu alls 47 milljörðum króna en peningaleg eign þeirra var á sama tíma 19 milljarðar. Sveitarfélög hafa upp til hópa verið rekin með stórfelldum halla og engu skipt hvort í landinu hefur almennt verið góðæri eða hallæri. Alltaf virðast sveitarstjórnarmenn hafa fundið fleiri og fleiri ástæður til að eyða peningum annarra: Yfirbyggðir íþróttavellir, keppnissundlaugar, menningarár, áhorfendastúkur á fótboltavöllum, tónlistarhús, rekstarstyrkir til íþróttafélaga, upphitaðir göngustígar og sífellt meiri niðurgreidd þjónusta eru aðeins brot af því sem skattgreiðendur nútíðar og ekki síst framtíðar þurfa að greiða.
Nú er ekki svo að skilja, að það sé af tómri mannvonsku sem borgar- og bæjarfulltrúar eyða peningum skattgreiðenda svona miskunnarlaust. Meginástæðan er sennilega oftast sú að þeir vilja falla í kramið og þeir vilja alls ekki styggja þá þrýstihópa sem þeir halda að séu áhrifamiklir. Borgarfulltrúi sem helst vill hafna ósk íþróttafélags um nýja stúku, hann hugsar með sér að enginn muni þakka sér þá afstöðu en hins vegar muni enginn úr því tiltekna félagi kjósa hann í næsta prófkjöri. Bæjarfulltrúi, sem ekki vill veita rekstarstyrk til tónlistarskóla eða leikfélags, hann hugsar með sér að skattgreiðendur muni aldrei launa sér liðveisluna en hins vegar muni menningarliðið launa honum lambið gráa þegar færi gefist.
Þetta mættu skattgreiðendur hafa í huga. Þangað til þeir láta sveitarsjórnarmenn finna að allt of langt hefur verið gengið í eyðslu og skuldasöfnun munu hagsmunahóparnir hafa frítt spil.