Eftirmaður hins einbeitta Kenneth Starr, saksóknara í málarekstri gegn Bill Clinton forseta Bandaríkjanna, vinnur nú að því fyrir nokkur hundruð milljónir króna að finna málshöfðunarmöguleika gegn forsetanum vegna meinsæris forsetans um kvennamál. Takist saksóknaranum það ætlunarverk sitt að fá Clinton sakfelldan þegar hann lætur af störfum mun Clinton ekki snúa heim til Little-Rock í Arkansas heldur dúsa bak við lás og slá. Þar sem íslensk dómsmálayfirvöld hafa tekið upp samvinnu við bandarísku alríkislögregluna mætti hugsa sér að sameina afplánunina og óskir Clintons að nokkru leyti með því að við Íslendingar byðum Clinton að taka refsinguna út í fangelsinu að Little-Rock austur í Flóa.
Mikilvægi séreignarréttarins fyrir efnahagslífið verður seint ofmetið og raunar má segja að þar sem skýran eignarrétt skortir sé vart hægt að tala um efnahagslíf. Birgir Þór Runólfsson dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands ritar grein undir yfirskriftinni „Eignarrétturinn er undirstaða hagkvæmni í fiskveiðum“ í nýlegt tölublað Hagmála tímarits viðskipta og hagfræðinema. Í inngangi greinarinnar segir: „Kenningar hagfræðinnar og hagsagan renna undir það styrkum stoðum, að sé séreignarréttur til staðar á framleiðslutækjum þá sé markaðurinn hentugri en ríkisvald til að skapa hagkvæmni í framleiðslu. Spyrja má hvort þessi alhæfing nái til fiskveiða sem byggja á kvótakerfi? Kvótar, undir núverandi kerfi, eru ekki fullkomnar eignir, þó þeir hafi reyndar þætti sem fullkomin eign þarf að hafa. Eins og eign, eru kvótarnir sérnýttir (exclusive) og framseljanlegir (transferable). Til þess að geta talist fullkomin eign þurfa kvótarnir, til viðbótar, að vera varanlegir (durable) og óumdeildir (security, quality of title). Heppilegasta þróunin í málefnum fiskveiðanna er að kvótarnir verði í framtíðinni fullkomnar eignir einstaklinga og fyrirtækja. Til þess að skapa hámarks arðsemi verða aflahlutdeildir framtíðarinnar að hafa alla þá þætti sem fullkomnar eignir hafa. Fullkominn eignarréttur þarf að myndast.“
Og áfram segir Birgir Þór: „Ástæður þess að fullkominn eignarréttur er svo efnahagslega mikilvægur, í stað afnota- eða leiguréttar, er að finna í ýmsum kenningum hagfræðinnar, t.d. kerfishagfræði og almannavalsfræði. Svo framarlega sem aðeins er um þau takmörkuðu réttindi að ræða sem núverandi kvótar eru, er hætt við að skynsamir útgerðarmenn líti ekki á fiskveiðar fyllilega sem framtíðarhagsmuni sína. Þeim hættir þá til að taka ákvarðanir og haga sér eins og um skammtíma ávinning sé að ræða. Enginn hvati skapast til að fá útgerðir til að draga úr svindli á kvótum og henda fiski í sjóinn, þrátt fyrir að hagkvæmt væri að landa þeim afla. Ef veiðiréttindin eru aðeins skammtímaréttindi eða ófullkomin réttindi er hættan sú að þegjandi samkomulag sé um það meðal veiðimanna að misnota auðlindina.“