Reykjavíkurborg er fátt óviðkomandi. Nú hefur Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Veitustofnana Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi R-listans, komið fram með þá snjöllu hugmynd að gera lón að Nesjavöllum. Alfreð telur að borgin eigi að fara í samkeppni við Bláa lónið og setja upp heilsubað fyrir útlendinga, enda viti hann til þess að fjöldi manna ferðist til Ungverjalands árlega til að baða sig á slíkum heilsustofnunum. Ef Alfreð eða aðrir borgarfulltrúar veltu einhvern tímann fyrir sér hvert hlutverk hins opinbera á að vera gæti verið að færri hugmyndir af þessu tagi sæju dagsins ljós, en eins og er virðist ekki hvarfla að borgarfulltrúum annað en sjálfsagt sé og eðlilegt að borgin þenji í sífellu út starfsemi sína og hefji látlaust nýjan rekstur, hvort sem er á dagheimilum, heilsuböðum eða ljósleiðarakerfum.
Þó er staðreynd að borgin ætti alls ekki að vera með fingurna í slíkum rekstri. Allt sem hér að ofan er nefnt og margt fleira á heima hjá einkaaðilum en ekki hinu opinbera. Allt er þetta nú þegar víða í höndum einkaaðila og ef borgin heldur sig til hlés og þvælist ekki fyrir athafnamönnum mun líka sjást mun meira frumkvæði þeirra.
Ætli einhverjum detti í hug að það sé tilviljun að sveitarfélögin í landinu eru rekin með hátt í tuttugu milljarða króna halla og að þau hafa síðustu árin safnað skuldum hratt og örugglega? Það skyldi þó ekki vera samhengi á milli hinna hugmyndaríku og verkglöðu borgar- og bæjarfulltrúa um allt land og skuldahalans sem þeir draga á eftir sér. Hvernig væri að kjósendur tækju sig til í næstu kosningum og kysu lata menn í borgar- og bæjarstjórnir? Lati-listinn væri ekki svo galinn.