Þriðjudagur 9. maí 2000

130. tbl. 4. árg.

Í fyrradag var í sjónvarpsþættinum Silfur Egils rætt við nýkjörinn leiðtoga Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, um þau verkefni sem bíða flokks hans í íslenskum stjórnmálum og alla þá nýlundu sem hann boðar. Fátt varð um svör, fyrir utan það að Össur hyggst skilgreina kröfur okkar á hendur ESB ef við skyldum vilja fara í aðildarviðræður. Þetta er auðvitað háleitt markmið. Þó var annað sem ekki vakti síður athygli, en það var að Össur taldi að taka þyrfti á siðferðisvanda í stjórnmálum hér á landi. Ekki tókst að fá almennilega upp gefið hvað formaðurinn nýi átti við og drógu áhorfendur líklega þá ályktun að þarna væri um almennt ódýrt og marklaust tal að ræða. Þetta væri bara eitthvað sem Össur áliti að hljómaði vel.

Í gær kom í ljós að svo var alls ekki. Össur hafði greinilega átt við þann siðferðisvanda sem er innanbúðar í Samfylkingunni og birtist í gær með þeim hætti að þingmenn Samfylkingarinnar urðu uppvísir að því, að hafa nýlega sent út 16-18 þúsund bréf á kostnað skattgreiðenda með pósti Alþingis. Og til að sýna landsmönnum að þeir kynnu ekki að skammast sín vörðu talsmen Samfylkingarinnar verknaðinn og sögðu að ekkert hefði verið óeðlilegt við þetta. Það blandast engum hugur um að formaður í slíkum flokki þarf að taka á öllu sínu ætli hann að vinna bug á siðferðisbresti í íslenskum stjórnmálum.