Andríki hefur tekið saman yfirlit yfir helstu álitaefni frumvarps til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Frumvarp var lagt fram fyrir nokkrum dögum og er jafnvel útlit fyrir að það verði afgreitt sem lög frá Alþingi á þeim stutta tíma sem eftir er af þinghaldi í vor. Lögin eiga þó ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót svo að engin skynsamleg ástæða er fyrir þeim asa sem er á málinu.
Í fyrsta hluta samantektarinnar er fjallað um það misrétti sem börn einstæðra foreldra þurfa að búa við verði lögin samþykkt. Eftirfarandi dæmi lýsir þessu: Vegna barns sem á einstæða móður sem var heimavinnandi í aðdraganda fæðingar og föður sem er farinn utan til starfa næstu tvö árin, verða greiddar rúmar 33 þúsund krónur á mánuði í 6 mánuði.Vegna barns sem nýtur beggja foreldra, sem hafa hvort um sig 500.000 króna mánaðartekjur, verða greiddar 400.000 krónur á mánuði í 9 mánuði. Annars vegar er því um að ræða 200 þúsund króna greiðslu til lágtekjukonu og hennar barns. Hins vegar 3,6 milljóna króna styrk til hátekjufólksins og þess barns.
Í öðrum hluta að reynt að meta þann kostnað sem af lögunum mun hljótast fyrir ríkið og er þar ekki síst stuðst við áætlun Samtaka atvinnulífsins um málið en samtökin segja að frumvarpið boði „tangarsók gegn stöðugleikanum“ í umsögn sinni um frumvarpið sem lesa má á heimasíðu þeirra. Í samantekt Andríkis segir um efnahagslega hlið málsins: „Sá útgjaldaauki sem boðaður er í hinu nýja frumvarpi fer illa saman við skoðanir sérfræðinga um það hvernig bregðast skuli við þeim vanda sem við er að glíma í efnahagsmálum. Þensla og viðskiptahalli hafa valdið áhyggjum og ástæða er fyrir ríkisvaldið að beita sér frekar fyrir því að úr þessu dragi en að auka á vandann. Aukinn sparnaður er til þess fallinn að vinna gegn þessu og þar getur ríkisvaldið haft hlutverki að gegna. Með því að draga úr ríkisútgjöldum hefði ríkisvaldið jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála. Þessi skoðun kemur m.a. fram í nýjasta riti Peningamála sem Seðlabanki Íslands gefur út. Þar segir að ljóst virðist „að þegar öllu er á botninn hvolft sé leitun að betri úrræðum til að auka þjóðhagslegan sparnað en venjubundnum aðhaldsaðgerðum.“ Þær aðgerðir, að auka ríkisútgjöld með því að greiða milljarða króna úr Atvinnuleysistryggingasjóði, geta ekki flokkast undir „venjubundnar aðhaldsaðgerðir“. Raunar eru þær afar langt frá því að geta flokkast undir aðhaldsaðgerðir og munu á þenslutíma virka eins og olía á eldinn.“
Í þriðja hlutanum eru rakin ýmis dæmi um mögulega misnotkun kerfisins en þessi misnotkun veldur verulegri óvissu um kostnaðinn af því og í fjórða hlutanum eru hinni sérstæðu meðferð málsins gerð skil en sú útfærsla sem frumvarpið boðar kemur á óvart þegar kosningastefnuskrá Framsóknarflokks og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar eru skoðaðar og er beinlínis í andstöðu við niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Því segir í lok skýrslunnar: „Þegar allt þetta er haft í huga; mismunun barna, óheyrilegur kostnaður, þensluáhrif, ótrúlegar fjárhæðir í félagslegar bætur til hátekjufólks, frávik frá stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar og stefnu beggja stjórnarflokka og nýjar víddir í bótasvikum kemur kannski ekki á óvart að sumir vilji keyra frumvarpið um fæðingar- og foreldraorlof í gegnum Alþingi á mettíma. Ef til vill er ekki að undra að ekki hafi verið leitað umsagnar hlutaðeigandi aðila eins og vaninn er, jafnvel um veigalítil mál, og að ekki sé vonast eftir víðtækri umræðu um málið.“