Fimmtudagur 30. desember 1999

364. tbl. 3. árg.

Patrick J. Michaels prófessor í umhverfisvísindum við University of Virginia er einn margra vísindamanna sem hefur efasemdir um spádóma þess efnis að veröldin sé á heljarþröm vegna útblásturs svonefndra gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. En hann gagnrýnir ekki aðeins spádóminn sjálfan heldur einnig þann pólitíska rétttrúnað sem einkennir dyggustu talsmenn heimsendakenningarinnar. Nýlega ritaði hann grein á heimsíðu CATO Institute þar sem hann gagnrýnir áhangendur gróðurhúsakenningarinnar fyrir að gera lítið úr rannsóknum sem benda í aðra átt.

Sem dæmi um slíka rannsókn bendir hann á niðurstöður sem birtust í maí í tímaritinu Science þess efnis að aukinn styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur afar jákvæð áhrif á vöxt furu. Rannsóknin bendir til þess að þessi jákvæðu áhrif á vöxt plantna séu tvöfalt meiri en gert er ráð fyrir í þeim tölvulíkönum sem notuð hafa verið til að spá fyrir um breytingar á styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu og hækkun hita í kjölfarið. Ef þetta er rétt og plöntur um víða veröld taka að vaxa hraðar taka þær að sjálfsögðu til sín meiri koltvísýring. Þetta getur því kollvarpað öllum spám um að styrkur koltvísýringsins haldi áfram að vaxa í andrúmsloftinu. Þetta gæti einmitt verið ástæða þess að hægt hefur á vextinum undanfarna áratugi. Bert Bolin, sem var einn af yfirmönnum nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og ber mikla ábyrgð á Kyoto samningnum, sendi Science bréf þar sem hann setti ofan í við vísindamennina fyrir að valda óróa í því pólitíska andrúmslofti sem væri eftir Kyoto ráðstefnuna!

Í gærkvöldi var sýnt viðtal í Ríkissjónvarpinu sem Kolbrún Bergþórsdóttir átti við Agnar Þórðarson rithöfund. Í viðtalinu kom fram að Agnari hafi ásamt fleiri rithöfundum verið boðið til Sovétríkjanna árið 1956 að tilstuðlan Kristins E. Andréssonar, fyrrverandi forstjóra Máls og menningar. Var tilgangur ferðarinnar að sannfæra menn um ágæti sovétskipulagsins. Var þeim meðal annars sýnd íbúð í fjölbýlishúsi til marks um góðan aðbúnað almennings. Steinn Steinarr var með í för og gerði athugasemd við ísskáp sem var í íbúðinni og þegar betur var að gáð gekk hann ekki fyrir rafmagni heldur var stórum ísklumpi komið fyrir í skápnum til að halda honum köldum. Steinn taldi einnig víst að ekki kæmi vatn úr krönum og sú var raunin þegar reynt var að skrúfa frá. Agnar sagði svo frá því í viðtali við Morgunblaðið þegar heim var komið hvernig þetta fyrirmyndarríki kom honum fyrir sjónir og taldi það markast af skrifræði, skorti og biðröðum. Ef menn vildu fá sé tebolla þyrftu þeir helst að panta hann daginn áður. Fékk hann bágt fyrir þessa frásögn í Þjóðviljanum.