Á nýlega endurbættri heimasíðu Institute of Economic Affairs er grein eftir Roger Bate sem birtist í Walls Street Journal 22. júlí síðastliðinn. Þar segir frá því að skattyfirvöld í Kanda hafi neitað að viðurkenna Greenpeace sem góðgerðarfélag. Greenpeace mun því ekki njóta þess að fyrirtæki geti styrkt samtökin og dregið framlagið frá tekjum og tekjur Greenpeace eru ekki heldur undanþegnar skatti. Ástæðurnar fyrir því að skattyfirvöld höfnuðu því að Greenpeace sé góðgerðarfélag er að samtökin vinna ekki að bættum lífskjörum fólks og aðgerðir þeirra miði að því að stöðva rekstur fyrirtækja og svipta fólk lífsbjörginni. Bate telur svo sem ekki að þessi ákvörðun muni hafi úrslitaáhrif á rekstur Greenpeace í heiminum enda standi samtökin styrkum fótum í Evrópu þar sem vinstrisinnaðar ríkisstjórnir dekri við þau. Þetta verði þó vonandi til þess að fólk átti sig betur á því að grænfriðungar vinni ekki að hagsmunum fólks heldur fyrst og fremst að því að skara eld að eigin köku. Samtökin séu alþjóðleg fjárplógsstarfsemi.
Í íslenskum lögum þ.e. lögum um tekju- og eignarskatt er einnig að finna ákvæði sem heimilar fyrirtækjum að draga framlög til viðurkenndra líknarfélaga frá tekjum. Það væri fróðlegt að vita hvort einhver sjálfskipuð umhverfisverndarsamtök hafi fengið slíka viðurkenningu hér. Sama ákvæði nær til stjórnmálaflokka en fylking vinstri manna sem bauð fram til þings í vor mun hafa nýtt sér ákvæðið þótt talsmenn hennar hafi ítrekað lýst því yfir að fylkingin sé ekki stjórnmálaflokkur.
Í síðustu viku féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem DV og fleiri fjölmiðlar gætu lært af. Þar var íslenska ríkið dæmt til að greiða manni bætur vegna handtöku. Maðurinn var handtekinn vegna gruns um að hann hefði berað kynfæri sín fyrir framan tíu ára stúlku. Röð mistaka virðist hins vegar hafa leitt til þess að strætisvagnastjóri í bláum einkennisbúning var handtekinn í stað hins grunaða sem var í bláum íþróttagalla. Ef DV hefði staðið sig með sama hætti og undanfarnar vikur hefði það um leið og maðurinn var handtekinn rætt við nágranna hans, skyldfólk, vinnufélaga og eiginkonu. DV hefði einnig birt myndir af heimili hans, bifreið, vinnustað og svo litmynd af manninum sjálfum. Þá hefði hann væntanlega ekki fengið að kaupa sér kjöt í Bónus en Bónus vill ekki viðskipti við menn sem liggja undir minnsta grun.