Helgarsprokið 17. október 1999

290. tbl. 3. árg.

Til eru þeir menn sem telja sig hafa á því fullkomna þekkingu hvað öðru fólki er fyrir bestu. Sumir hafa líka að eigin áliti betri siðferðisvitund en næsti maður. Þegar þetta tvennt fer saman er ekki von á góðu. Þegar við bætist að slíkir menn komast í þá aðstöðu að leggja öðrum lífsreglurnar er ástæða fyrir annað fólk til að fara að gæta að sér. Nokkrir menn af þessu tagi tylltu sér í ræðustól Alþingis síðastliðinn fimmtudag og tóku þátt í utandagskárumræðu um „verslun með manneskjur“ eins og málshefjandi Guðrún Ögmundsdóttir kaus að kalla það.

Var rætt um klám og vændi og þótti ræðumönnum lítið til starfseminnar koma. Á því geta þeir vitaskuld haft hvaða skoðun sem er. Það er verra þegar öllu er ruglað saman í umræðu sem þessari, því nógu erfitt er víst að ræða mál af þessu tagi af einhverju viti. Í því skyni að sverta og reyna að stöðva starfsemi þeirra skemmtistaða sem bjóða upp á dans fáklæddra einstaklinga er blandað inn umræðu um barnaklám og þá tegund ofbeldis þar sem fólki er nauðgað. Hið tvennt síðarnefnda er glæpur, enda er þar auðvelt að benda á fórnarlamb glæpsins. Það er umhugsunarefni að andstæðingum nektardansstaða skuli vera svo tamt að leggja að jöfnu barnaklám og nauðganir þar sem ofbeldi er beitt og nektardans sem byggir á frjálsum viðskiptum sjálfráða einstaklinga. Einnig hefur mikið verið reynt til þess að spyrða fíkniefnanotkun, -dreifingu og -sölu við fyrrnefnda dansstaði og dansara þrátt fyrir að engar staðreyndir styðji fullyrðingar í þá veru.

Hefðbundið vændi eða erótískur dans er hins vegar ekki glæpur þar sem ekkert fórnarlamb er til staðar. Vændi fer fram með fullu samþykki beggja sem þátt taka og erótíski dansinn er sömuleiðis með fullu samþykki allra viðstaddra. Með þessum athöfnum er því ekki verið að neyða neinu upp á neinn. Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd er til fólk sem vill banna hvort tveggja og færir þau rök að þetta séu einhvers konar „siðferðisglæpir“. Þessu fólki passar ekki að annað fólk hagi sér með þessum hætti og því á að banna þessa tilteknu framkomu.

Dansarinn hefur hemil á þingmanninum
Dansarinn hefur hemil á þingmanninum

„Ég er sannfærður um það að við verðum fyrr eða síðar að taka á þessum málum því ásóknin vex og heldur áfram. Við skulum taka á þessu fyrr en síðar. Viðskipti með fólk, einkum konur, á sér stað vegna eftirspurnar. Semsagt eftirspurnar vegna tiltekinna þarfa. Það væri nær að setja upp meðferðarstofnanir fyrir perra heldur en að láta þetta viðgangast.  Við skulum stoppa þetta með lagasetningu“, voru orð Hjálmars Jónssonar þingmanns í fyrrnefndum umræðum á þingi. Í Reykjavík einni eru sjö staðir sem bjóða upp á nektardans. Aðstandendur þeirra kvarta ekki undan aðsókninni. Það væri gaman, ekki síst fyrir Hjálmar Jónsson, ef það yrði kannað hve stór hluti landsmanna hefur sótt þessa staði. Þá kæmi í ljós hve marga kjósendur sína Hjálmar hefur kallað „perra“ sem rétt væri að vista þar til gerðum stofnunum.

Biskup hefur undanfarið látið í ljós ótta við að „viðnámsþröskuldur“ okkar sé að lækka. Þessi orð biskups fela í sér að hann telur að til sé einn „viðnámsþröskuldur“ sem allir deila. Sama viðhorf birtist hjá ýmsum stjórnmálamönnum sem hafa áhyggjur af því hvert íslenskt samfélag stefnir og hjá ýmsum stjórnlyndum konum sem hafa áhyggjur af því að til séu öðruvísi konur. Vef-Þjóðviljinn hefur mestar áhyggjur af því að íslenskt samfélag verði pólitískri rétthugsun að bráð og hér verði ekki rúm fyrir einstaklinga heldur aðeins fyrir „okkur“ sem eigum „viðnámsþröskuldinn“. Aðeins einn biskup í gervallri Íslandssögunni hefur hlotið viðurnefnið „góði“ og sá biskup hætti líka sínum vatnsaustri þegar honum var kurteislega bent á að einhversstaðar verða vondir að vera.