Mánudagur 8. mars 1999

67. tbl. 3. árg.

fishani.gif (7567 bytes)
fishani.gif (7567 bytes)

Tveir fyrrverandi þingmenn komu nokkuð við sögu í síðustu viku er þeir sendu þjóðinni góð ráð. Guðmundur G. Þórarinsson ásamt fleiri „kunnum mönnum“ kom með hugmyndir um endurreisn bæjarútgerða í hverju sveitarfélagi og Matthías Bjarnason mælti með Sverri Hermannssyni með því að taka heiðurssæti á framboðslista Sverris í Vestfjarðakjördæmi. En sagan tengir þessa þingmenn og þjóðina eða öllu heldur fjármuni skattgreiðenda einnig saman með afgerandi hætti. Frá því segir í bókinni Laxaveislan mikla sem út kom árið 1992: „Saga fiskeldis á Íslandi er saga bjartsýni og brostinna vona, saga spillingar og pólítískrar fyrirgreiðslu, eins og gerist verst, hún er saga hagsmunaárekstra, sem þingmenn af gamla skólanum vita ekki hvað þýðir og geta ómögulega skilið hvað er. Einn þeirra sem átti smáhlut í fiskeldisfyrirtæki sagði við fiskeldisumræður á Alþingi að hann væri engum háður í þessum efnum, en viðurkenndi svo, að hann væri bara u.þ.b. 1% háður vegna aðildar að fiskeldisfyrirtæki. Annar þingmaður lenti í bullandi hagsmunaárekstri á þingi vegna eignar á fiskeldisfyrirtæki og formennsku í Landssambandi fiskeldismanna. Hann afgreiddi gagnrýnina [á fjárausturinn í fiskeldið] sem bábilju. Þessir herramenn heita Matthías Bjarnason og Guðmundur G. Þórarinsson.“

Um Guðmund G. segir jafnframt: „Guðmundur G. Þórarinsson var meðal fremstu forgöngumanna fiskeldis og hannaði sjálfur stærstu strandeldisstöðvarnar með stærstu gjaldþrotin. Hann var hinn mikli bjartsýnismaður sem aflað sér stöðugt opinberra lána. Stöð hans, Ísþór hf. við Þorlákshöfn varð gjaldþrota upp á 550-600 milljónir.“

Og Matthías fær líka fína umsögn í Laxaveislunni: „Matthías Bjarnason var lengi formaður stjórnar Byggðastofnunar. Hann hefur jafnan ráðið miklu um úthlutun milljarðalána, sem nú hafa með gjaldþrotum spillt stórlega fyrir Byggðastefnunni, þar á meðal til fiskeldisfyrirtækis, sem hann átti sjálfur hlut í og varð gjaldþrota upp á 240 milljónir króna. Hann beitti sér jafnvel fyrir vonlausum lánveitingum eftir að ríkisstjórnin hafði bannað þær.“

castro.jpg (6408 bytes)
castro.jpg (6408 bytes)

Hér á árum áður heimsóttu leiðtogar vinstri manna á Íslandi kommúnistaleiðtoga í Austur-Evrópu, drukku með þeim te og álitu þá mikla sómamenn. Ein tedrykkjan var heimsókn í Ólafs Ragnars Grímssonar til hins blóðuga Ceausescu fyrrum harðstjóra í Rúmeníu. Síðan liðu nokkur ár og álitið var að vinstri menn hefðu lært sína lexíu og væru hættir að sötra te með harðstjórum. Þá gerðist það að Márgret Frimánnsdottír núverandi talsmaður hins nýja Þjóðvaka skrapp til Kúbu með leifarnar af Alþýðubandalaginu til að efla tengslin við draumaríki Castrós. Tæpum þremur árum áður hafði þessi sami Castró að vísu látið skjóta niður tvær litlar óvopnaðar flugvélar, en innanborðs voru andstæðingar stjórnar hans. Slík framkoma harðstjórans dró ekki úr löngun talsmannsins til að treysta böndin.

Nú hefur þessi félagi Margrétar sýnt klærnar á ný og tekið upp enn harðari refsingar við því að gagnrýna stjórnvöld og eiga samskipti við erlenda fjölmiðla. Og til að leggja áherslu á þessar breytingar lét Castró handtaka nokkra Kúbana sem gáfu út blað fyrir tæpum tveimur árum sem var andsnúið honum og eiga þeir yfir höfði sér langa fangelsisdóma. Þetta eru nýjustu gleðifregnirnar úr sæluríki talsmanns Castrós hér á landi, Margrétar Frímannsdóttur, og væntanlega fyllist hún stolti yfir stuðningi sínum við hetjuna.