Laugardagur 8. janúar 2000

8. tbl. 4. árg.

Vefþjóðviljinn sagði í gær frá því, að á fimmtudaginn birtu DV og Stöð 2 miklar fréttir um það að nú væri mikil krafa uppi um það, að hinn merki stjórnmálamaður, Össur Skarphéðinsson, verði formaður Fylkingarinnar. Höfðu þessir fjölmiðlar aðallega rætt þetta mál við einn nafngreindan mann, hinn merka stjórnmálamann Össur Skarphéðinsson sem staðfesti það að ýmsir menn – sem hann þó nafngreindi ekki – styðja nú hinn merka stjórnmálamann Össur Skarphéðinsson til forystuhlutverks.

Reynir Össur á traust fylkingarmanna?
Reynir Össur á traust fylkingarmanna?

DV fylgdi þessu máli svo eftir í gær og birti þá heilsíðufrétt undir hinni látlausu fyrirsögn: „Sjá ljósið í Össuri“. Fréttin, sem að þessu sinni var eftir Reyni Traustason, greindi frá því, að mikill stuðningur er nú við hinn merka stjórnmálamann Össur Skarphéðinsson. Fréttin studdist reyndar ekki við nokkurn einasta nafngreindan viðmælanda og er furðulegt að blaðið hafi ekki krufið málið til mergjar með því að leita til dæmis til hins merka stjórnmálamanns Össurar Skarphéðinssonar. Honum hefur því komið fréttin mjög á óvart.

Af baksíðu DV mátti svo ráða að í helgarblaðinu verði forsíðumynd af hinum merka stjórnmálamanni, Össuri Skarphéðinssyni, og boðað var „ítarlegt viðtal“ við hinn merka stjórnmálamann Össur Skarphéðinsson, sem njóti nú mikils stuðnings.