Mikill áróður er nú rekinn fyrir auknum sparnaði. Ýmsum þykir sem landsmenn eyði auknum tekjum sínum um þessar mundir helst í neysluvörur eins og bíla og heimilistæki en skeyti lítt um að leggja fyrir til mögru áranna. Þetta er nefnt þensla. Leiðarahöfundar DV hafa því hvatt til þess að skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa (þó aðeins kaupa á íslenskum hlutabréfum!) verði aukinn á ný og leiðarahöfundar Morgunblaðsins vilja að fólk fái skattaafslátt ef það sparar fyrir námskostnaði barna sinna. Skattaafsláttur vegna húsnæðissparnaðar hefur einnig verið nefndur en hann var lagður niður fyrir nokkrum misserum.
Við þennan málflutning er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi eru bílar algjör nauðsyn á Íslandi og vegna ofurskatta á bílana sjálfa og eldsneytið sem þeir ganga fyrir er ekki hlaupið að því fyrir venjulegt fólk að endurnýja bíla sína. Það þarf því ekki að koma á óvart að nú þegar hagur landsmanna hefur vænkast örlítið að þeir grípi tækifærið og endurnýi úr sér genginn bílaflotann. Í öðru lagi má segja að því einfaldari sem skattkerfi eru því betra. Íslenska tekjuskattskerfinu hefur verið misþyrmt nóg á undaförnum áratug með alls kyns tekjutengingum bóta að ógleymdum miklum skattahækkunum (tekjuskattsprósentan hækkaði úr 35 í 42%). Alls kyns sposlur vegna sparnaðar myndu flækja kerfið enn frekar. Í þriðja lagi má sjálfsagt endalaust finna góð mál til að spara fyrir. Af hverju ekki skattaafslátt vegna sparnaðar til lækniskostnaðar, umönnunar aldraðra foreldra, eigin endurmenntunar o.s.frv.?
Það má furðu sæta að engum leiðarahöfundi hafi dottið í hug að ef til vill muni fólk spara meira ef það hefur meira umleikis. Ef það þyrfti með öðrum orðum ekki að greiða svo háa skatta sem raun ber vitni. Almenningur er að minnsta kosta líklegri til að spara en ríki og sveitarfélög sem eyða undantekningarlítið langt um efni fram.