Þriðjudagur 7. júlí 1998

188. tbl. 2. árg.

Prestastefna var á dögunum. Biskupinn yfir Íslandi tók presta sína til bæna og taldi meðal annars að kirkjan hefði ekki staðið sig nægilega vel í jafnréttismálum karla og kvenna. Meðal annars taldi biskup að lög um veitingu prestakalla (lög nr. 44/1987) hefðu ekki reynst nægilega vel í þessum málum. Nú er ekki gott að segja hvað biskup er að fara. Lögin um veitingu prestakalla fela söfnuðunum sjálfum öll völd um það hvern þeir taka sér til prests og hvern ekki. Aðal- og varamenn sóknarnefndar velja á milli umsækjenda um prestsembætti og eru allir í söfnuðinum, sem komnir eru af barnsaldri, kjörgengir og mega kjósa til sóknarnefndar. Sætti söfnuðurinn sig ekki við val þessara kjörmanna á presti, getur hann ákveðið að kjósa prestinn sjálfur. Það er rétt, að nefna má dæmi um að kvenkyns guðfræðingar hafi sótt án árangurs um prestsembætti og sumir oftar en einu sinni. Það er hins vegar ekki galli á lögunum. Hafi eitthvert misrétti átt sér stað, er það á ábyrgð safnaðanna en ekki laganna.

Biskup lét þess getið að hann vildi að hver einasti starfsmaður kirkjunnar færi nú á námskeið í jafnréttismálum. Aldraðir kirkjuverðir og titrandi meðhjálparar eru því væntanlegir á námskeið hjá Jafnréttisráði þar sem þeim verða kennd rétt viðhorf. Ættu þá allir að verða ánægðir og konurnar í guðfræðingahópi fá þá störfin sem þær vilja. Það er heldur ekki seinna vænna að kirkjan bæti ráð sitt. Misréttið á þeim bæ á sér lengri sögu en margur áttar sig á. Svo mun nefnilega hafa tekist til, að sá sem í öndverðu valdi sér lærisveina og stofnaði kirkju, valdi sér enga konu til þeirra starfa. Sést þar vel hve háskalegt er þegar menn sem ekki hafa lokið námskeiði frá Jafnréttisráði komast til áhrifa. Sá aðili sem hér um ræðir, mun þó hafa það sér til nokkurra málsbóta að hafa þegið umboð sitt frá jafnvel enn hærri stað en Jafnréttisráði – og er þá mikið sagt.

Nú eru uppi hugmyndir um að breyta nafni Keflavíkurflugvallar þannig að við það verði bætt nafni Reykjavíkurborgar. Hefur bæjarstjórn Reykjanesbæjar þegar samþykkt harðorða ályktun þar sem ráðagerðunum er mótmælt. Nú verður ekki annað séð en að hugmyndin sé hin undarlegasta, jafnvel í vafasamara lagi þar sem tilgangurinn er, ef marka má fréttir, sá að telja erlendum farþegum trú um að flugvöllurinn standi í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. En hvað sem því líður, er varla hægt að komast hjá því að telja að fáir aðilar ættu síður að mótmæla heimskulegum nafnbreytingum en bæjarstjórn „Reykjanesbæjar“.