Fimmtudagur 2. apríl 1998

92. tbl. 2. árg.

Kyoto samkomulaginu svonefnda um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda hefur verið hampað sem miklum tímamótum. Enn á þó eftir að undirrita samkomulagið og þróunarlöndin eiga ekki aðild að því sem gerir það marklítið. Jafnvel þótt þróunarlöndin ættu aðild og allar þjóðir heims færu eftir samkomulaginu mundi það ekki hafa marktæk áhrif á hitastig andrúmsloftsins næstu 50 árin ef marka má spálíkön þau sem samkomulagið byggir á. (Árið 2050 yrði hitinn 0,18°C lægri en ef ekkert samkomulag væri gert.)
Kyoto ráðstefnunni hefur einnig verið hampað sem mikilli vakningarsamkomu. Með ráðstefnunni hafi margir fengið áhuga á að spara orku og draga úr bruna jarðefnaeldsneytis. Ef til vill hafa einhverjir bílaframleiðendur auglýst það sérstaklega eftir ráðstefnuna að þeir séu að vinna að ýmsum endurbótum á bílvélum sínum en þróunin í þeim efnum hófst ekki með kerfiskarlaþinginu í Kyoto. Allt frá því bíllinn kom fyrst til sögunnar hafa menn reynt að bæta nýtni vélarinnar sem knýr hann og á hverju ári koma fram hagkvæmari vélar. Til marks um þetta má nefna að Íslendingar juku akstur sinn í kílómetrum um 22% frá 1990 til 1995. Á sama tíma jókst bensínnotkun okkar hins vegar aðeins um 7%.

Í nýútkomnu tölublaði tímaritsins Frjálsrar verslunar er viðtal við athafnamanninn Pétur Björnsson. Pétur er ekki í hópi þeirra manna í íslensku viðskiptalífi sem almenningur þekkir best, enda hefur hann starfað erlendis árum saman. Hann hefur búið í Bretlandi undanfarin 16 ár og rekið þar fisksölufyrirtæki sem selt hefur fisk fyrir rúma 50 milljarða króna. Nú er hann fluttur til Íslands og rekur héðan fyrirtæki sem starfa í fjórum löndum. Pétur er í ljósi reynslu sinnar spurður álits á því hvort rétt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið og svarar því hreint út: „Eins og er njótum við ágætra kjara í Evrópu vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum mikið tollafrelsi fyrir megnið af okkar útflutningi og ég tel að við njótum flestra kostanna án þess að þurfa að þola gallana af slíku samstarfi. Meðan svo er höfum við ekki eftir neinu að slægjast með aðild. Nýleg skoðanakönnun meðal Svía sýnir að stór hluti þeirra er mótfallinn aðild að fenginni reynslu. Innan bresks sjávarútvegs er yfirgnæfandi meirihluti fyrir því að ganga úr ESB.“