Indriði G. Þorsteinsson hefur sent frá sér nýja bók Söng lýðveldis þar sem hann segir frá kynnum sínum af ýmsum eftirminnilegum mönnum eins og Halldóri Laxnes og Jónasi frá Hriflu. Í bókinni eru einnig hugleiðingar Indriða um þjóðmál og ber þar mest á andúð hans á kommúnistum og áhrifum þeirra á menntamál og menningu hérlendis. Þetta er fjörleg bók eins og pistlar Indriði í laugardagsblaði Morgunblaðisins þessi misserin eru og óhætt er að mæla með. Indriði segir svo um sameiningartilburði á vinstri vængnum í kaflanum Einnota sósíalistar: Sem betur fer hefur Alþýðuflokkurinn staðið af sér það álag sem hefur fylgt því á liðnum áratugum að vera einskonar eftirsótt gengilbeina á vegahóteli vinstrimennskunnar í landinu. Þar hafa kommúnistar á biðilsbuxunum, misjafnlega reiðfara, sótt að henni nótt og dag, stundum með bréf upp á það að austan að nú væri runninn upp bræðraþelstími demókrata og kommúnista. Sú skipan mála endaði með einum klofningnum.
Það hefur vakið nokkra athygli og verið lofað og prísað af umhverfisverndarsinnum að Evrópusambandið leggur til 15% minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2010. Það er hins vegar eitt að segja eitthvað og annað að gera það. Fæstum löndum Evrópusambandsins mun takst að standa við þá yfirlýsingu sem þau undirrituðu í Ríó árið 1992 um að hafa ekki aukið útblástur gróðurhúsalofttegunda árið 2000 frá því sem var árið 1990. Í tillögu Evrópusambandsins í Kyoto er gert ráð fyrir að Evrópusambandið komi fram sem heild þannig að lönd innan þess geta í raun vegið hvort annað upp. Þannig er gert ráð fyrir að Spánn og Portúgal geti aukið útblástur til ársins 2015 þar sem aðrar þjóðir innna ES muni draga úr útblæstri. Evrópusambandið er hins vegar andvígt því að aðrar þjóðir geti átt slík viðskipti.