Miðvikudagur 20. janúar 2010

20. tbl. 14. árg.

E ins og Vefþjóðviljinn minntist á í gær halda flokkarnir prófkjör vegna sveitarstjórnarkosninga á næstu dögum. Fjölmiðlar hafa enn sem komið er sýnt því lítinn áhuga. Fyrir því eru eflaust ýmsar ástæður. Sumir fjölmiðlar og álitsgjafar hafa aðallega áhuga á fortíðinni en ekki þeim málum þar sem enn er hægt að taka ákvarðanir og breyta einhverju. Önnur skýring er líklega sú að ekki hefur orðið vart við mikinn yfirlýstan mun frambjóðenda, hvar í flokki sem litið er. Svo mætti stundum ætla að allir hefðu þeir sömu stjórnmálaáherslurnar og lífsskoðanirnar, sem getur þó ekki verið.

En ef svolítið nánar er gáð, kemur í ljós að ekki eru allir í sama mót steypt. Í kynningu á sér vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vekur Kjartan Magnússon borgarfulltrúi athygli á máli sem honum er til meiri prýði en öðrum borgarfulltrúum. Kjartan skrifar

Stærsti reikningur, sem velt hefur verið yfir á íslenska skattgreiðendur vegna einnar framkvæmdar, er kostnaður vegna byggingar Tónlistarhússins við Reykjavíkurhöfn en heildarskuldbinding vegna verksins er nú sennilega komin yfir þrjátíu milljarða króna. Undirritaður greiddi einn borgarfulltrúa atkvæði gegn verkefninu þegar það var samþykkt af borgarstjórn í desember 2004 og varaði þá þegar við þeirri ofurskuldsetningu sem af því myndi hljótast fyrir ríki og borg.

Afstaða Kjartans í þessu máli er vitaskuld mjög til fyrirmyndar. Og minnir á að enn er hægt að stöðva óskapnaðinn við höfnina, þar sem haldið er áfram í heimildaleysi og reynt að bjóða sem mest út og sem hraðast, í þeirri von að þegar fólk vakni verði í raun komið svo langt að ekki sé hægt að hætta við.

En þangað er enn ekki komið. Það er fjölmiðlum til skammar að þeir fjalla ekki um hvernig haldið er áfram með milljarðaausturinn án þess að haft sé fyrir því að leita heimilda í fjárlögum og fjárhagsáætlunum.

Kjartan Magnússon hefur í borgarstjórn verið eini bandamaður skattgreiðenda í þessu máli.