Tvær leikhúskonur, Þórey Sigþórsdóttir leikkona og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri, voru í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi, en þær munu hafa verið í hópi kvenna úr leiklistargeiranum sem hittist nýverið og ræddi – ótrúlegt en satt – „stöðu kvenna innan leikhússins“. Þær Þórey og Þórhildur gerðu í fréttunum kröfu til þess að fleiri leikrit eftir konur yrðu sett á svið og fleiri konur fengnar til að leikstýra þeim, og var á Þórhildi að skilja að núverandi hlutfall leikskálda væri brot á – ótrúlegt en satt – jafnréttislögum. Jájá, það er sem sagt komin fram sú kenning, sett fram af þekktum leikstjóra og fyrrverandi alþingismanni, að það sé andstætt lögum hvaða verk leikhúsin setja á svið! Það eiga að vera fleiri verk eftir konur og þar með færri eftir karla. Það þarf ekki endilega önnur verk, ekki fleiri eða færri gamanleiki, harmleiki, söngleiki eða aðra tegund leikverka, neinei það þarf fleiri verk eftir konur. Bara einhverjar konur. Konur konur konur. Og allt í lagi þó það verði til þess að einhverjar konur fái verk sín færð á svið, einfaldlega vegna kynferðis höfundarins en ekki vegna þess hvað þykir í verkið spunnið.
Segjum að næsta vetur ákveddi Þjóðleikhúsið að sýna „Hart í bak“ eftir Jökul Jakobsson, „Stundarfrið“ eftir Guðmund Steinsson, „Dag vonar“ eftir Birgi Sigurðsson og „Hafið“ eftir Ólaf Hauk Símonarson, svo nokkur afar vinsæl íslensk leikverk séu nefnd, þá gæti það verið andstætt lögum, að minnsta kosti samkvæmt mati Þórhildar Þorleifsdóttur og þá kannski líka Kærunefndar jafnréttismála. Ekki vegna efnis verkanna, málfars, söguþráðar eða einhvers slíks, heldur vegna þess af hvaða kyni höfundarnir eru. En ef einhver tvö þessara verka væru eftir konur þá væri hins vegar allt í lagi, jafnvel þó verkin væru algerlega eins að öðru leyti. Ætli einhver haldi kannski að íslenskir leikhússtjórar velji leikrit með því að flokka handritin fyrst eftir kynferði höfundarins og svo lesi þeir bara karlana? Sennilega heldur einhver það, svona eins og sumir halda að vinnuveitendur hugsi ekki um að fá sem besta starfsmenn til fyrirtækja sinni heldur sem flesta karlmenn. Og reyni sem mest þeir mega að ýta launum karlanna upp en halda launum kvennanna.
En nú segir kannski einhver að verk þessara ágætu leikskálda hefðu orðið öðruvísi ef skáldin hefðu verið konur. Jájá. Og eflaust líka ef leikskáldin hefðu verið íþróttamenn, fatlaðir eða frístundabændur, það getur verið. Allt sem menn gera hefði getað orðið öðru vísi ef eitthvað. Það er bara allt annað mál. Það er ekki þannig að heimurinn séu bara tveir hópar, karlar og konur, og svo séu allir eins innan hvors hóps um sig. Að „konur“ semji svona og svona leikrit en „karlar“ semji svo öðruvísi leikrit. En þess háttar misskilningur eða hvað á að kalla hann, hefur fært alla „jafnréttisumræðu“ út í móa. Jafnréttisumræða snýst almennt ekki um að kynin skuli hafa jafnan rétt, heldur hefur hún verið færð út í það hvernig færi megi konum réttindi á kostnað karla. Jafnréttisumræðan og kreddusmiðir hennar berjast þannig ekki fyrir því að kona og karl sem sækja um sama starfið standi jafnt að vígi, heldur vilja þeir gera konunni auðveldara en karlinum erfiðara að fá starfið. Ekki vegna atriða sem varða umsækjendurna sjálfa heldur eftir talningu á því hvernig fyrri kynslóðir sóttu í starfsgreinina. Annar umsækjandinn á að gjalda fyrir en hinn að njóta þess hvort afar þeirra og ömmur, feður þeirra og mæður, hafa haslað sér þar völl eða ekki. Annar umsækjandinn á semsagt að njóta atriða sem ekki tengjast honum eða verðleikum hans á nokkurn hátt. Og hinn á að gjalda atriða sem ekki tengjast honum eða verðleikum hans á nokkurn hátt. Og það kalla sumir víst jafnrétti.
Rétt eins og það á að velja umsækjendur eftir því sem þeir sjálfir hafa fram að færa, þá er eðlilegt að velja leikrit eftir því hvað í þau er spunnið. Þó er vissulega ekkert við það að athuga að einkaaðilar geri í slíkum málum eins og þeim sýnist. Það væri ekkert óréttlátt við það þó einkafyrirtæki ákveddi að ráða eingöngu til sín konur eða einkarekið leikhús að sýna ekkert nema verk eftir sköllótta karlmenn eða konur á sakaskrá. Enginn er neyddur til að skipta við þessi fyrirtæki eða sækja sýningarnar og enginn á rétt á því að vera ráðinn til starfa eða fá verk sitt leikið.