Verið er að opna nýja mat- og sérvöruverslun í Reykjavík og hyggjast eigendur hennar opna aðra sams konar verslun inna tíðar. Þetta eru nokkur tíðindi í því ljósi að mikið hefur verið rætt um að hér sé einokun á matvörumarkaði og nýir aðilar komist ekki að. Hafa stóru orðin ekki verið spöruð í því samhengi. Fulltrúar neytendasamtaka og Samkeppnisstofnunar hafa ekki verið sáttir við að neytendur beini viðskiptum sínum til þeirra verslana sem þeim hentar best hverju sinni og hafa álitið það sérstakan vanda hve sumar verslanir eru vinsælar. Með öðrum orðum hafa neytendaforkólfar og embættismenn á Samkeppnisstofnun talið val neytenda á verslunum á einhvern hátt rangt. Þingmenn hafa einnig blandað sér í þessa umræðu og amast við því að neytendur beini viðskiptum sínum þangað sem þeir telja best hverju sinni. Því fleiri neytendur sem velja ákveðna verslun þeim mun meiri líkur eru á að hún verði fyrir aðkasti þeirra sem vita betur, á Alþingi, í neytendasamtökum, Samkeppnisstofnun og víðar.
Nú er auðvitað ekki gott að spá fyrir um gengi hinnar nýju verslunar sem opnar á morgun. Það fer allt eftir því hvernig henni gengur að sinna þörfum neytenda og hvort hún getur gert betur að því leyti en aðrir á markaðnum. Hitt er víst að ef henni farnast illa munu fyrrnefndir aðilar ekki spara stóru orðin um einokun og óheilbrigt ástand. Þá verður ekki dregin sú ályktun að samkeppni hér sé hörð og þeir sem fyrir eru standi sig vel. Sömuleiðis má hún gæta sín á því að gera ekki of vel við neytendur og ná þar með til sín miklum viðskiptum því þannig gæti hún einnig skapað sér óvild þeirra sem ávallt telja sig vita betur en neytendur. Þá kynni hún í þeirra augum að vera orðin „ráðandi“ á markaðnum og þar með ógnun við neytendur.