Miðvikudagur 11. maí 2016

Vefþjóðviljinn 132. tbl. 20. árg.

Hvers vegna skiptir ríkið sér af verðlagningu fjármagns, vöxtum?
Hvers vegna skiptir ríkið sér af verðlagningu fjármagns, vöxtum?

Í fréttum dagsins kom fram að seðlabankinn hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,75 prósentum. Nokkrir embættismenn setjast við Excel og ákveða verð á fjármagni í viðskiptum annars og óviðkomandi fólks. Fimm komma sjö fimm.

En fréttirnar af þessu snúast ekki um hve furðulegt það sé að í vestrænu markaðshagskerfi starfi opinber verðlagsnefnd af þessu tagi heldur spyrja fréttamenn hvort nefndin hafi komist að „réttri“ niðurstöðu. Hefði ekki mátt lækka vextina til að bæta hag húsbyggjenda, heimila og fyrirtækja? Er nokkur þörf á svo háum vöxtum þegar verðbólga er lítil líkt og nú?

Enginn spyr til dæmis hvað þessir embættismenn haldi eiginlega að þeir séu, hvaðan þeim komi vitneskja um hvaða vaxtakjör fólk vill hafa á lánsviðskiptum sín í milli og hvort þeir haldi að við búum við kommúnisma hvar ríkið úthluti einni lausn fyrir alla.

Hvers vegna er Seðlabanki Íslands ekki lagður niður og Íslendingum veitt frelsi til að nota þá mynt sem þeir sjálfir kjósa og lána fé sín á milli án þess að opinber verðlagsnefnd sé að skipta sér af því?

Það myndi líka slá á „spennuna á vinnumarkaði“ og „verðbólguþrýstinginn“ að fá yfir hundrað starfsmenn seðlabankans út á akurinn.