Vefþjóðviljinn 117. tbl. 20. árg.
Eftir að fjölmiðlar birtu nöfn nokkurra Íslendinga af þeim 600 sem sagt er að finnist í svonefndum Panama-skjölum krafðist stjórnarandstaðan þingkosninga „strax“ þótt stjórnarskráin mæli skýrt fyrir um að kosningar skuli ekki fara fram fyrr en í apríl 2017.
En ef að Panama-skjölin eru svo mikilvæg fyrir íslensk stjórnmál er þá ekki rétt að bíða þess að fjölmiðlar birti allt sem þar er að finna áður en kosið er? Ef að skjölin eru talin vega þyngra en stjórnarskrá lýðveldisins er ekki rétt að hinkra hið minnsta eftir birtingu allra upplýsinga úr þeim? Fjölmiðlarnir ætla sér marga mánuði í þá vinnu.
Ekki er útilokað að upplýsingar úr skjölunum geti sömuleiðis leitt til rannsóknar yfirvalda á skattskilum og eftir atvikum málsmeðferðar fyrir dómstólum sem tekur sinn tíma. Réttarkerfið er hin eðlilega leið fyrir slík mál fremur en að þau séu gerð að pólitískum hráskinnaleik í aðdraganda kosninga. Hér er þrískipting ríkisvalds og hún á að standa sama hvað gerist á lögmannsstofum suður í höfum.