Mánudagur 25. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 116. tbl. 20. árg.

Eins og margir vita líklega er ekkert ólöglegt við það að eiga félag eða hlut í félagi sem starfar í öðru landi. Slíkt félag nefnist aflandsfélag. Breti sem kaupir hlut í íslensku félagi á hlut í aflandsfélagi í augum eigin skattyfirvalda. Íslendingur sem stofnar félag í Þýskalandi með þýskum kunningja sínum, á líka hlut í aflandsfélagi. Íslendingur sem stofnaði bankareikning á námsárunum í Lundi og á reikninginn enn þótt hann sé fluttur heim, hann á aflandsreikning. Pólskur smiður, sem kemur til Íslands í stutta byggingavinnu og stofnar launareikning í Arionbanka, hann á aflandsreikning í augum skattstjórans í Varsjá.

Þetta er augljóst. Það er enginn glæpur heldur löglegt að eiga aflandsfélag.

En hvað þegar félagið er í „skattaparadís“?

Það er raunar löglegt líka. Það er meira að segja gert ráð fyrir því í skattalögum. Það má eiga félag í lágskattaríkjum en tilkynna tekjur af þeim til skattsins. Ef menn gera það, þá er slíkt fullkomlega löglegt.

Það geta verið margar ástæður fyrir því að stofnuð séu félög í erlendum ríkjum sem sérhæfa sig í skráningu slíkra félaga. Ein ástæðan getur verið sú að auðveldara er að eiga í alþjóðlegum viðskiptum í nafni slíkra félaga, þau eru undir erlendum reglum sem eru alþekktar í alþjóðlegum viðskiptum og svo framvegis.

En þótt margir viti þetta þá svarar það ekki athugasemdinni um að það sem sé löglegt sé ekki alltaf siðlegt. Það séu bara einhverjir endurskoðendur og baunateljarar sem sjái ekki muninn á því tvennu.

Nei, gott og vel. En hvernig ætli standi á því, að margir þeirra sem tala af mestri fyrirlitingu um þá sem segja að gerðir sínar séu löglegar, vilji endilega fá sem flestar „skráðar siðareglur“?

Ein vinsælasta krafan undanfarin ár er að settar verði siðareglur og birtar opinberlega. En þegar búið er að því, er þá ekki búið að segja að það sem sé í samræmi við skráðar reglur sé siðlegt?

Hvers vegna er fráleitt að meta gjörðir manna eftir skráðum lagareglum en mjög nútímalegt að meta þær eftir skráðum siðareglum?

Er ekki skynsamlegast að átta sig á að það er ekki hægt að taka á öllum spurningum með fyrirfram skráðum reglum? Er ekki skynsamlegasta reglan að lög séu skráð en siðaviðmið ekki?