Föstudagur 20. mars 2015

Vefþjóðviljinn 79. tbl. 19. árg.

Þetta er nokkuð vel af sér vikið.

Það stefndi í að landsfundur Samfylkingarinnar yrði alveg tíðindalaus, sem er ekki sérstakt heilbrigðismerki hjá stjórnarandstöðuflokki með lítið fylgi. Svo var tilkynnt um mótframboð gegn formanni flokksins, og slíkt verður yfirleitt vítamínsprauta. Annað hvort fær formaðurinn traustyfirlýsingu sem nýtist honum og flokknum, eða flokkurinn fær nýjan formann sem hefur eitthvert ferskleikayfirbragð í fyrstu.

En nei, seinheppni Samfylkingarinnar er söm við sig.

Þeir fengu ekki nýjan formann. 

En sitjandi formaður fékk ekki heldur traustsyfirlýsingu.

Árni Páll Árnason var kjörinn formaður með minnihluta atkvæða. 

Og aðrir svokallaðir forystumenn flokksins sýndu styrk sinn með því að þora ekki að lýsa stuðningi við annan hvorn frambjóðandann. Fjölmiðlar hlífðu þeim flestir, en vefsíðan Eyjan sagði frá þvíÖssur Skarphéðinsson, Dagur B. Eggertsson, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Katrín Júlíusdóttir hafi öll átt það sameiginlegt að hafa ekki svarað skilaboðum í allan dag.

Það er vel við hæfi að fjölmiðlabindindi alls þessa fólks beri upp á sama dag og sólmyrkva.

Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins var fréttamaður á staðnum þegar Dagur B. Eggertsson tók fyrstu skóflustungu að hofi þeirra sem segjast játa ásatrú. Af einhverjum ástæðum var Dagur ekki spurður um formannskjörið, en ekki hefur verið gefið upp hvort hann neitaði að tjá sig, eða fréttastofan hlífði honum við spurningunni. Hvernig væri að segja fólki hvort var?