Helgarsprokið 28. desember 2014

Vefþjóðviljinn 362. tbl. 18. árg.

Hrein vinstristjórn, óhreinni útblástur frá bílum. Með því að hygla Dieselbílum á kostnað bensínbíla eykst sótmengun. Mælingar benda til að hreinu vinstristjórninni tekist að auka sótmengun í Reykjavík.
Hrein vinstristjórn, óhreinni útblástur frá bílum. Með því að hygla Dieselbílum á kostnað bensínbíla eykst sótmengun. Mælingar benda til að hreinu vinstristjórninni tekist að auka sótmengun í Reykjavík.

Eitt fyrstu verka hinnar fyrstu hreinu vinstristjórnar árið 2009 var að breyta bifreiðagjaldi og vörugjaldi á bifreiðum og eldsneyti og leggja kolefnisgjald á eldsneyti með það markmiði að ýta undir notkun Dieselbíla á kostnað bensínbíla.

Öllum mátti þó vera ljóst á þeim tíma að útblástur Dieselbíla er talinn miklu skaðlegri heilsu mannsins en útblástur bensínbíla. Dieselolía er þyngra eldsneyti en bensín, kolvetnisefnissameindirnar eru lengri og bruni þeirra skilar meira sóti eða því sem nefnt hefur verið svifryk en bruni bensíns. Svifryk (PM10) eru agnir sem eru minni en 10 míkrómetrar (µm) að stærð og eiga greiða leið ofan í öndunarfærin.

Engu að síður ákváðu Samfylkingin og VG að hygla Dieselbílum með nefndum margvíslegum lagabreytingum.

Í skýrslu Vegagerðarinnar „Samsetning svifryks í Reykjavík“ sem verkfræðistofan Efla vann og kom út árið 2013 kemur fram að hlutfall sóts í svifryki í Reykjavík hafi hækkað út 7% árið 2003 í 30% árið 2013. Þetta eru alvarleg tíðindi þótt hærra hlutfall sóts skýrist að einhverju leyti af því að mjög hefur dregið úr notkun nagladekkja og þar með vægi vegryks. Auk þess er sjálfsagt að hafa ýmsa fyrirvara á því að bera þessar mælingar áranna 2003 og 2013 saman, meðal annars vegna áhrifa veðurs á mælingar. Í skýrslunni segir:

Hlutfall díselbíla hefur einnig aukist en sótmengun frá díselbílum er meiri en frá bensínbílum. Hlutfall díselbíla jókst frá því að vera 15,1% af heildarfjölda bíla að meðaltali á árunum 1999-2002 í 24,6% af heildarbílafjölda í byrjun árs 2013.

Hvarvetna í hinum vestræna heimi ræða menn hins vegar um leiðir til þess að fækka Dieselbílum, ekki síst í þéttbýli þar sem sótið úr þeim er í návígi við fólk.

En hér ákvað hreina vinstristjórnin að draga taum Dieselbílanna með margvíslegum skattalagabreytingum auk þess að styðja við rekstur úr sér genginna strætisvagna sem að mestu eru knúnir Dieselolíu.

Vinstri græn mengun. Umhverfissóðarnir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gerðu margvíslegar breytingar á skattalöggjöfinni til að auka svifryksmengun. Því miður virðist sem þeim hafi tekist ætlunarverk sitt.
Vinstri græn mengun. Umhverfissóðarnir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gerðu margvíslegar breytingar á skattalöggjöfinni til að auka svifryksmengun. Því miður virðist sem þeim hafi tekist ætlunarverk sitt.

Fyrrnefndar mælingar sem gerðar hafa verið á svifryki í Reykjavík benda til þess að hreinu vinstristjórninni hafi tekist að óhreinka loftið í borginni með aðgerðum sínum.

Og til að bæta gráu ofan á svart hafa vinstri menn allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur ýtt undir þetta dekur við Dieselbílana með „grænum skrefum.“ Til að mynda eru það einkum Dieselbílar og ýmis skattfrjáls auðmannaleikföng sem fá „frítt í stæði“ í borginni.

Hvenær ætlar borgarstjórn Reykjavíkur eiginlega að krefjast þess að hætt verði að stuðla að sótmengun í borginni? Ætlar borgarstjórinn sem mun læknismenntaður að láta það sem vind um eyru þjóta að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur varað sérstaklega við Dieselbílum?