Vefþjóðviljinn 354. tbl. 18. árg.
Hin miðstýrða ríkislausn með opinberum úthlutunarsjóði sem kölluð er náttúrupassi fær hvergi góðar viðtökur.
En því miður andmæla sumir þessari miðstýringu og ríkisforsjá með því að leggja til enn meira af slíku. Gistináttagjald og komugjald eru dæmi þar um. Náttúrupassinn hefur þó þann kost umfram hreina skatta á borð við komugjald og gistináttagjald að aðeins þeir sem ætla að nýta sér þjónustu þjóðgarðanna myndu greiða fyrir hana en ekki hjón sem eru að koma úr helgarferð til Berlínar eða saumaklúbbur sem hittist á hóteli á Akureyri.
Aðeins með því að greitt sé fyrir þjónustu á hverjum stað er mögulegt að tryggja að aðeins þeir sem njóti greiði og að einnig að hægt sé að stýra álagi með mismunandi gjöldum og innheimtuaðferðum, að tekjur verði eftir á þeim stöðum sem afla þeirra og menn losni með enn einn opinbera úthlutunarsjóðinn þar sem fulltrúar flokka og kjördæma togast á um peningana.
Einhverjum kann að þykja það flókið að menn greiði fyrir heimsóknir á hvern stað. En eins og greiðslutæknin er orðin er þetta auðvitað lítið mál og sjálfsagt yrðu ýmsar útfærslur á því eins og þekkist víða þar sem ýmist er greitt fyrir bíl, bílastæði, fyrir hvern ferðamann eða bara fyrir siglingu eða tiltekna skoðunarferð.
Má ekki líka vera smá samkeppni á þessum sviðum eins og öðrum? Það er eiginlega hlægilegt að ráðherra samkeppnismála skuli leggja til eina miðstýrða ríkislausn fyrir alla, ein ríkismamma ætlar að passa alla.