Vefþjóðviljinn 37. tbl. 19. árg.
Einn þungavigtarþingmanna Bjartrar framtíðar er Brynhildur Pétursdóttir. Hún hefur nú lagt fram ítarlega fyrirspurn til ráðherra.
Fyrsta spurning þingmannsins til Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra er:
Hvernig skilgreinir ráðherra matarsóun?
Næsta spurning er:
Hefur umfang matarsóunar hér á landi verið mælt eða á það lagt mat og ef svo er, hver var niðurstaðan?
Svo er spurt, ef umfangið hafi verið metið, hversu miklu af „matarafgöngum sem hefði mátti nýta“ sé hent á Íslandi, í mötuneytum, verslunum, á heimilum og á öðrum stöðum.
Hafi matarsóun ekki verið metin, þá vill þingmaðurinn fá að vita hvert megi gera ráð fyrir að umfang hennar sé, ef miðað er við „reynslu þeirra þjóða sem lengst eru komnar við að meta matarsóun“. Svarið á ráðherrann að sundurliða í sóun í mötuneytum, verslunum, á heimilinum og á öðrum stöðum, „ef unnt er“.
Svo vill þingmaðurinn fá að vita hve „háum fjárhæðum nemur árleg matarsóun hér á landi að mati ráðherra“.
Ætli geti verið að þessi þingmaður telji að vinstri og hægri séu úrelt hugtök, en hún leggi meiri áherslu á nærsamfélagið eins og þroskuðum nútímamanni ber?