Vefþjóðviljinn 36. tbl. 19. árg.
Þeir sem voru farnir að örvænta um málsvörn frelsisunnenda eftir að John Locke og nafni hans Stuart Mill hættu að skrifa í blöð og bækur hljóta að hafa tekið gleði sína á ný eftir að hafa lesið Viðskiptablað dagsins.
Þar er rætt við Guðbjart Hannesson þingmann Samfylkingarinnar um lagafrumvarp þess efnis að einstaklingar megi reka verslanir með áfenga drykki.
„Þetta mál er engan veginn tilbúið og þetta er mál sem að bannar ríkisrekstur. Það er nefninlega það að þegar menn eru að tala um aukið frelsi þá er það gert þegar er verið að banna ríkisrekstur,“ segir Guðbjartur, en varla sé hægt að tala um aukið frelsi þegar lagt sé til bann á aðkomu ríkisins að smásölunni á sama tíma.
Þessi nýjasti liðsmaður viðskiptafrelsis hlýtur að beita sér á fleiri sviðum. Til að mynda skortir ríkið talsvert frelsi til að reka matvöruverslanir. Ekki verður heldur séð að frelsi ríkisins sé mikið þegar kemur að sölu á hvers kyns íþróttavörum. Frelsi til skósmíða er nær ekkert fyrir ríkisvald Guðbjarts Hannessonar.