Vefþjóðviljinn 71. tbl. 19. árg.
Það er eitthvað verulega mikið að í iðnaðarráðuneytinu. Nei, þetta er reyndar ekki pistill um náttúrupassann.
Í vikunni hafa komið út tvö blöð með það sem forsíðuefni hvernig iðnaðarráðuneytið hyglar ákveðnum fyrirtækjum.
Í öðru tilfellinu, sem sagt er frá í tímaritinu Þjóðmálum, fékk einkafyrirtæki að skrifa lagafrumvarp fyrir ráðuneytið um endurnýjanlegt eldsneyti. Frumvarpið flaug svo efnislega óbreytt í gegnum þingið án þess að þingmönnum væri kunnugt um höfund þess. Lögin hafa valdið Íslendingum stórkostlegum fjárútlátum. Í hinu tilfellinu segir Viðskiptablaðið frá nýjum „fjárfestingarsamningi“ sem ráðuneytið hefur gert við eitt fiskeldisfyrirtæki. Samninginn má meta sem mörg hundruð milljóna króna ríkisstyrk.
Eitt sinn var það Sjálfstæðisflokknum kappsmál að lög, reglur, skattar og gjöld yrðu almenn og eitt gengi yfir alla. Það var til að mynda eitt af mikilvægustu stefnumálum flokksins þegar hann tók við völdum árið 1991 eftir að vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar hafði beitt sértækum „lausnum“ í atvinnulífinu í gríð og erg.
En núverandi iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins virðist á öndverðum meiði við þessa grundvallarstefnu flokksins. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur jafnvel gengið svo langt að leggja fram frumvarp sem festir í sessi lagaheimild fyrir ráðuneyti hennar til að hleypa þóknanlegum fyrirtækjum framhjá almennum lögum og reglum í landinu.
Þetta mál er reyndar alvarlegra en svo að það varði aðeins Sjálfstæðisflokkinn og grundvallarstefnu hans. Alþingi verður að eindurheimta sjálfsvirðingu sína með því að gera iðnaðarráðuneytinu og ráðherranum grein fyrir því í eitt skipti fyrir öll að það er þingið sem fer með löggjafarvaldið en ekki ráðuneytið. Lög, reglur, skattar og gjöld eiga ekki að sveiflast eftir því hvort einstök fyrirtæki eru í náðinni eða kjördæminu hjá ráðherranum og embættismönnum hans.