Vefþjóðviljinn 72. tbl. 19. árg.
Stóryrði gærkvöldsins, vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu, eiga fæst við gild rök að styðjast.
Sumir virðast halda þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2009 sé „enn í gildi“. Það er misskilningur. Þingsályktun er ekki annað en yfirlýsing um skoðun þess Alþingis sem situr hverju sinni. Það er ekki þannig að allar þingsályktunartillögur sem samþykktar hafa verið síðustu áratugina séu enn „í gildi“. Þeir sem halda þetta, rugla saman lögum og þingsályktunartillögum.
Þeir sem segja að ríkisstjórnin fari „fram hjá þinginu“ virðast halda að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun sem fari gegn vilja meirihluta þingmanna. Svo er alls ekki. Meirihluti þingmanna vildi afturkalla umsóknina.
Ef stjórnarandstaðan heldur að meirihluti þingmanna vilji að Ísland verði áfram umsóknarríki, þá getur hún einfaldlega lagt fram tillögu um að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar verði afturkölluð. Greiða mætti atkvæði um slíka tillögu þegar í stað, því enginn myndi halda uppi málþófi gegn henni.
Ef stjórnarandstaðan trúir því í alvöru að ríkisstjórnin hafi gengið gegn vilja meirihluta þingsins, þá leggur hún auðvitað slíka tillögu fram.
Þingið getur hvenær sem er samþykkt vantraust á ríkisstjórnina eða utanríkisráðherra. Ef þinginu finnst í raun að ríkisstjórnin hafi farið gegn vilja þingsins, þá gerir þingið þetta bara.
Þeir sem tala um að farið hafi verið gegn vilja þingsins, þingviljinn hafi ekki verið leiddur í ljós eða að brotið hafi verið gegn þingræðinu, ættu að benda á þá 32 þingmenn sem eru sammála þeim um það.
Það geta þeir ekki, því meirihluti þingsins er sáttur við þá aðferð sem ríkisstjórnin notaði.
Menn geta alveg verið á þeirri skoðun að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og eigi því að vera umsóknarríki áfram. En sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að Ísland skuli ekki vera umsóknarríki áfram, fer ekki gegn vilja Alþingis. Hún kann að fara gegn vilja þess Alþingis sem sat árið 2009, en það Alþingi situr ekki lengur.