Vefþjóðviljinn 345. tbl. 18. árg.
Þótt það sé auðvitað algjörlega ótrúlegt þá er staðan enn svo, nú þegar aðeins ein umræða um fjárlög er eftir, að „stjórnarmeirihlutinn“ ætlar að hækka framlög skattgreiðenda til starfsmanna Ríkisútvarpsins umtalsvert. Þetta er gert frekar en að lækka skatta, frekar en að greiða skuldir, og auðvitað frekar en að setja þessa peninga í heilbrigðiskerfið, sem menn segja þó að sé „hrunið“.
Stjórnarþingmenn hljóta, við þriðju umræðu um fjárlög, að hverfa frá þessari uppgjöf.
Síðustu daga hafa vinstrimenn staðið fyrir ofsafenginni herferð fyrir því að framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins verði enn aukin, umfram það sem stjórnarmeirihlutinn ætlar að gera. Hitinn í þeirri herferð hefur raunar sagt meira en mörg orð.
Eitt af því sem haldið er fram, til að reyna að ná meira fé út úr skattgreiðendum, er að í lögum um Ríkisútvarpið sé því ætlað mjög umfangsmikið hlutverk og til að sinna því þurfi ofboðslegt fé, meira en alla þá milljarða sem það þegar fær á hverju ári.
Þetta er alger misskilningur. Slík lagaákvæði skoðast alltaf í ljósi fjárlaga hverju sinni. Það eru fjárlög sem marka rammann og innan hans skoðast markmiðsákvæðin. Sem dæmi má taka að samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga á sjúklingur rétt á fullkomnustu læknisþjónustu sem er mögulegt að veita. Þótt ríkið verði öllum sínum tekjum til heilbrigðismála, þá væri það ekki hægt. Auðvitað eru þessi ákvæði einfaldlega skoðuð í ljósi fjárlaga hverju sinni.
En þeir sem halda að alþingi eigi að fara eftir ákvæðum um hlutverk Ríkisútvarpsins þegar það ákveður fjárveitingar þangað, eru þeir þá ekki örugglega þeirrar skoðunar að yfirvofandi hækkun fjárveitinga til Ríkisútvarpsins eigi enn betur heima hjá spítölunum? Samkvæmt lögum á að veita sjúklingum bestu mögulegu læknishjálp og það hlýtur að vera enn brýnna en beinar útsendingar frá handboltaleikjum.