Helgarsprokið 2. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 306. tbl. 18. árg.

Forstjóri Jafnréttisstofu sér engan tilgang með því að færa starfsemina í húsnæði þar sem leigan er lægri, ef hún má ekki sjálf eyða mismuninum. Enginn tilgangur í því að fara betur með skattpeninga.
Forstjóri Jafnréttisstofu sér engan tilgang með því að færa starfsemina í húsnæði þar sem leigan er lægri, ef hún má ekki sjálf eyða mismuninum. Enginn tilgangur í því að fara betur með skattpeninga.

Fyrir fáum vikum var sagt frá því að ákaflega mikilvæg ríkisstofnun, Jafnréttisstofa, hefði á síðasta ári eytt 441.000 krónum í leigubílakostnað. Meginskýringin var að sögn Kristínar Ástgeirsdóttur forstjóra að hún sjálf hefði ekki bílpróf en þyrfti að ferðast mikið, enda geta menn sagt sér sjálfir að forstjóri Jafnréttisstofu þarf að vera samfellt á ferðinni í mikilvægum erindum.

Þetta er ekki sérkennilegasta fréttin af Jafnréttisstofu á þessu ári.
Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins segir frá því að Jafnréttisstofa muni ekki flytja úr núverandi húsnæði sínu á næstunni. Er í fréttinni haft eftir Kristínu Ástgeirsdóttur að hún hafi bundið vonir við að af því gæti orðið, enda væri leigan í núverandi húsnæði afar dýr. En svo segir:

Í ljós hafi hins vegar komið að yrði stofnunin flutt myndu fjárframlög til hennar lækka sem samsvaraði lækkuðu leiguverði og því myndi flutningur hennar ekki þjóna tilgangi sínum að mati Kristínar. „Við höfðum vonast til þess að það myndi ekki gerast og að við gætum notað mismuninn í reksturinn“, segir Kristín.

Hér er lýst mjög sérstöku viðhorfi til skattgreiðenda og hagsmuna þeirra. En þetta sýnir ef til vill hvers vegna hið opinbera þenst sífellt út og alltaf er krafist hærri fjárframlaga. Forstjóri Jafnréttisstofu sér engan tilgang með því að færa starfsemina í húsnæði þar sem leigan er lægri, ef hún má ekki sjálf eyða mismuninum. Enginn tilgangur í því að fara betur með skattpeninga.

Það er skemmtilegt að hugsa til þess að forstjóri Jafnréttisstofu, sem enga ástæðu sér til þess að fara í ódýrara húsnæði ef sparnaðurinn við það verður ekki ekki sjálfkrafa að auknu ráðstöfunarfé stofnunarinnar, sat fyrir fáum árum í sérstökum starfshópi sem vann svokallaðan siðfræðihluta sem fylgdi skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið. Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrverandi alþingismaður Kvennalistans og forstjóri Jafnréttisstofu, var ein þriggja sem stýrði þessum hópi. Hvernig ætli menn hefðu látið ef einhver fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði verið valinn í hópinn? Fréttamenn og álitsgjafar höfðu ekkert við það að athuga að fyrrverandi þingmaður Kvennalistans, og þáverandi forstjóri opinberrar stofnunar, sæti í hópnum.

En það eru hvorki húsaleigan né leigubílakostnaðurinn sem eru mesta vandamálið við Jafnréttisstofu. Vandamálið er hún sjálf. Hún er hugsanavilla. Á Íslandi er jafnrétti kynja hið mesta sem þekkist. Jafnrétti snýst um að fólki sé ekki mismunað í lögum. Flest það sem í opinberri umræðu er blandað við „jafnréttismál“ eða „jafnréttisbaráttuna“, kemur jafnrétti ekkert við. Svo einfalt dæmi sé tekið þá hafa karlar og konur jafnan rétt til þess að læra hjúkrunarfræði og starfa svo sem hjúkrunarfræðingar. Það er ekkert ójafnrétti í því fólgið þótt mun fleiri konur en karlar hafi á síðustu árum og áratugum nýtt sér þann rétt.

Ef lögin mismuna fólki ekki eftir kynferði, þá er ekkert ójafnrétti fólgið í því hvort fleiri konur eða karlar gegna starfi, hvort sem það starf hjúkrunarfræðings, rafvirkja, sjómanns, óperusöngvara eða hvað annað. Það er ekki hlutverk ríkisins að hafa skoðun á kynjahlutföllum í einstökum starfsgreinum. En auðvitað verður Jafnréttisstofa ekki lögð niður á meðan hún heyrir undir eina ráðuneyti Samfylkingarinnar, en hinir stjórnarflokkarnir hræddir við öll pólitísk átök við vinstrimenn.

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að á núverandi verðlagi námu framlög ríkisins til Jafnréttisstofu 72,4 milljónum árið 2010, en samkvæmt núverandi fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 94 milljóna króna framlagi á sama verðlagi. Það er tæplega 30% hækkun, enda er nú við völd ríkisstjórn sem Katrín Jakobsdóttir segir að stýrist af „dólgafrjálshyggju“.