Laugardagur 5. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 186. tbl. 18. árg.

Egill Helgason starfsmaður Ríkisútvarpsins telur að morð á þremur drengjum þurfi að skoðast í samhengi við syndir feðra þeirra.
Egill Helgason starfsmaður Ríkisútvarpsins telur að morð á þremur drengjum þurfi að skoðast í samhengi við syndir feðra þeirra.

Það má segja margt um umræðuna á Íslandi. En hingað til hefur verið lítið svigrúm fyrir þá sem mæla ofbeldi bót, hvað þá menn sem reyna að finna „aðstæður“ sem réttlæta morð að yfirlögðu ráði.

Íslendingar hafa af einhverjum ástæðum, kannski vegna fámennis, lengi verið afhuga því að til séu aðstæður sem gefa einstökum mönnum eða ríkisvaldinu rétt til að svipta manneskjur sjálfu lífinu.

En eins og Vefþjóðviljinn gat um á föstudaginn er Salmann nokkur Tamimi hjá félagi múslíma fylgjandi því að ríkisvaldinu verði falið að drepa menn að vissum skilyrðum uppfylltum, það er þeir hafi sjálfir tekið líf. Það er miður að slíkum sjónarmiðum sé haldið fram athugasemdalítið. En kannski er það hluti af „fjölmenningu“ að láta sér fátt um finnast ef fulltrúi „minnihlutahóps“ fer fram með svo fráleitar óskir.

En hvaða afsökun er fyrir fálætinu þegar innfæddur fulltrúi hinna talandi stétta, Egill Helgason, starfsmaður Ríkisútvarpsins skrifar á Eyjuna:

Það er afskaplega erfitt að horfa framhjá þeirri staðreynd þegar rætt er um brottnám og morð á þremur ísraelskum ungmennum að þeir voru börn landránsmanna.

Þeir koma semsagt úr byggðum sem Ísraelsmenn hafa reist á herteknum svæðum í trássi við alþjóðalög og gegn mótmælum alþjóðasamfélagsins.

Vefþjóðviljanum er orða vant yfir því að þegar þrir drengir eru vísvitandi myrtir eigi Egill erfitt með að líta „framhjá þeirri staðreynd að þeir voru börn landránsmanna“.

Salmann Tamimi dregur þó mörkin við að illvirkjar sjálfir verði látnir svara til saka, auga fyrir auga. Villimennskan er hins vegar orðin hrein og klár þegar börn eiga að gjalda fyrir syndir feðranna með lífi sínu.