Miðvikudagur 12. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 316. tbl. 18. árg.

Ríkisstjórnin hefur nær ekkert gert sem ætti að gera vinstrimönnum gramt í geði. Hún hefur engin pólitísk lög afnumið sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms setti. Það er ótrúlegt, en er engu að síður svo.

Hún hefur varla lækkað skatta neitt. Tekjuskatturinn fór niður um örfáar krónur en skattþrepin eru enn þrjú, ofurskattarnir sem lagðir voru sérstaklega á sjávarútveginn standa næstum óbreyttir.

„Auðlegðarskattinum“ breytti hún ekki neitt, heldur lét lög vinstristjórnarinnar um þau standa óbreytt þar til þau runnu út.

Ríkisstjórnin hefur ekki staðið fyrir neinum niðurskurði sem máli skiptir. Hún hefur aukið framlög til ýmissa málaflokka, eins og til dæmis heilbrigðismála. Að ógleymdri hinni brjálæðislegu þjóðnýtingu einkaskulda sem kölluð er leiðrétting.

Engu að síður er efnt til mótmælafunda þar sem reiðir vinstrimenn fara með stóryrði. Fjölmiðlar auglýsa þá fyrirfram dögum saman.

Getur verið að engu skipti hvað stjórnvöld geri, vinstrimenn séu orðnir svo frekir að þeir muni „mótmæla“ svo lengi sem þeirra eigin menn séu ekki beinlínis í ráðherrastólunum?

Meðal þess sem gerir auðveldara að æsa fólk til mótmæla, eru fyrirliggjandi tillögur um breytingar á virðisaukaskattkerfinu. Auðvitað er æskilegt að einfalda kerfið, fækka þrepum og afnema undanþágur, og tillögurnar munu auk þess hafa þann kost að með þeim er gert ráð fyrir að heildarálagður virðisaukaskattur lækki, þar sem lækkun efra þreps vegi meira en lækkun neðra þreps. En pólitískur raunveruleiki er engu að síður sá, að varla verður almennur stuðningur við hækkun virðisaukaskatts á matvæli nema lækkun skattsins á aðra hluti verði svo rífleg og sjáanleg að fólk treysti því að sú lækkun skili sér í vöruverði.

Ef menn ætla að hækka virðisaukaskatt á matvæli til þess að einfalda virðisaukaskattkerfið, þá þurfa þeir að lækka hærra þrepið meira en nú er gert ráð fyrir. Það ættu þingmenn að gera þegar þeir halda áfram að fjalla um fjárlagafrumvarpið. Víða má skera niður til að mæta því tekjutapi“ ríkisins.