Laugardagur 4. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 4. tbl. 18. árg.

Þorsteinn Pálsson segir Icesave málið gott dæmi um hvernig smáríki hagnast á þátttöku í alþjóðasamstarfi og aðild að alþjóðlegri löggjöf. Hvílíkur hagnaður.
Þorsteinn Pálsson segir Icesave málið gott dæmi um hvernig smáríki hagnast á þátttöku í alþjóðasamstarfi og aðild að alþjóðlegri löggjöf. Hvílíkur hagnaður.

Sem von er líður líklega nokkur tími þar til stuðningsmenn þess að Íslendingar gengjust undir Icesave ánauðina jafna sig fyllilega á því að hafa stutt hinar löglausu kröfur Breta og Hollendinga til íslenska ríkisins vegna innlána einkabanka.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra var einn þeirra sem vildi undirgangast ánauðina án þess að fá skorið úr um málið fyrir dómi. Í Fréttablaðinu í dag rýnir hann í áramótaávarp forsætisráðherra og segir:

Ærin ástæða var til að minnast á sigur Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Hin hlið þeirra góðu tíðinda var þó ekki nefnd. Hún er sú að það voru lög Evrópusambandsins sem í þessu tilviki vernduðu Ísland í deilum við tvö af aðildarríkjum þess. Þetta er því gott dæmi um hvernig smáríki hagnast á þátttöku í alþjóðasamstarfi og aðild að alþjóðlegri löggjöf.

Þetta er vissulega skemmtileg hringsönnun hjá Þorsteini. Krafa reist á illa ígrundaðri löggjöf ESB fæst ekki viðurkennd og því ber að þakka fyrir þá vernd sem Ísland hafði af löggjöfinni. Sjálfur vildi Þorsteinn þó viðurkenna kröfuna með vísan í einmitt löggjöfina sem hann nú segir að hafi varið okkur fyrir kröfunni.

En hvað með allan kostnaðinn og tjónið sem Ísland varð fyrir vegna aðgerða ESB, Hollendinga og ekki síst Breta fyrst eftir bankahrunið og fram til ársins 2012? Allt var það áralanga ónæði og ófrægingarherferð gegn Íslandi byggt á rangtúlkunum Þorsteins, ESB og ríkja þess um löggjöf sambandsins sjálfs um innstæðutryggingar.

Er það líka „gott dæmi um hvernig smáríki hagnast á þátttöku í alþjóðasamstarfi og aðild að alþjóðlegri löggjöf“?