Vefþjóðviljinn 3. tbl. 18. árg.
Í vor verða sveitarstjórnarkosningar og mikilvægt að skattamál verði vandlega rædd í kosningabaráttunni. Hlutur sveitarstjórnarmanna í skattlagningu hins almenna manns er nefnilega mjög mikill. Mikill og stækkandi hluti tekna launamanna fer nú í greiðslu útsvars til sveitarfélaga, en sveitarstjórnarmenn virðast almennt engan áhuga hafa á hófsemi í þeirri skattlagningu.
Samkvæmt lögum getur útsvar sveitarfélaga verið á bilinu 12,44% til 14,52%. Hvorki fleiri né færri en 58 sveitarfélög leggja hæsta mögulega útsvar á íbúa sína, þar á meðal Reykjavík, enda var Jón Gnarr eini oddvitinn í síðustu kosningum sem talaði um að lækka útsvarið. En aðdáendum Jóns finnst þetta auðvitað jafn flott og annað hjá honum.
Það að sveitarfélag leggi hæsta mögulega útsvar á íbúa sína, er auðvitað yfirlýsing ráðamanna sveitarfélagsins um að þeir hafi gefist upp. Þeir annað hvort geti ekki eða vilji alls ekki skera nokkurn skapaðan hlut niður. Ekkert af öllum verkefnum sem bæjarfélagið ræðst í, enginn af styrkjunum sem það veitir, sé þess eðlis að þeim þyki koma til greina að hætta því en leyfa bæjarbúum að halda ofurlítið fleiri krónum eftir í launaumslaginu.
Það eru ekki nema tvö sveitarfélög sem leggja á lágmarksútsvar. Skorradalshreppur eins og hann er vanur en Grímsnes- og Grafningshreppur gerir það einnig að þessu sinni. Aðeins þrjú sveitarfélög á landinu lækka nú útsvar milli ára og sjálfsagt að hrósa stjórnendum þeirra fyrir það. Þetta eru Grindavík, sem lækkar útsvar úr 14,28% í 13,99%, Vestmannaeyjar, þar sem útsvarið er lækkað úr 14,48% í 13,99% og svo Grímsnes- og Grafningshreppur þar sem útsvarið er lækkað úr 14,48% í 12,44%. Það er töluverð kjarabót fyrir launamenn í Grímsnes- og Grafningshreppi og alveg sjálfsagt að hrósa ráðamönnum þar sérstaklega.
Ríkisstjórnin hefur talað um að afnema lágmarksútsvarið. Ekki er víst að því fylgdi nein kjarabót nokkurs staðar. Það sem er mun brýnna að gera er að lækka hámarksútsvarið. Ríkisstjórnin á að tilkynna það sem fyrst að þetta verði gert, eftir einhvern aðlögunartíma fyrir eyðsluklærnar í sveitarstjórnunum.