Hin brjóstumkennanlega umræða um ráðningu fréttastjóra Ríkisútvarpsins rifjar eitt og annað upp. Eða ætti að gera það. Það er gaman til þess að hugsa að það eru ekki nema tæp sjö ár síðan ráða þurfti fréttastjóra á Ríkissjónvarpið, tímabundið, en um alllangan tíma. Þá kepptu um setningu þau Elín Hirst og Helgi H. Jónsson. Þá, eins og nú, var leitað álits útvarpsráðs. Í umsögn sinni skiptist útvarpsráð skiptist þannig, að meirihluti þess, fulltrúar vinstriflokkanna og Framsóknarflokks, mælti með Helga, en minnihlutinn, fulltrúar Sjálfstæðisflokks, með Elínu. Endanleg ákvörðun, þá eins og nú, var í höndum útvarpsstjóra. Hann ákvað að fara að meðmælum meirihluta útvarpsráðs og setti Helga H. Jónsson í starfið.
Þarna hvarflaði ekki að vinstri flokkunum að greiða ekki atkvæði. Þarna bauðst þeim nefnilega að mynda meirihluta með Framsóknarflokknum og það gerðu þeir. Útvarpsstjóri fór að tillögu þeirra en hafnaði þeirri tillögu sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu gert. Enginn reis upp á afturlappirnar og lýsti vantrausti á útvarpsstjóra þó hann færi að ráðum útvarpsráðs, sem þarna skiptist nær jafnt milli tveggja umsækjenda.
En hvern var hann að setja í fréttastjórastarfið? Helga H. Jónsson fyrrverandi varaþingmann Framsóknarflokksins. Eiginmann Helgu Jónsdóttur, borgarritara, staðgengils borgarstjóra og nánasta samverkamanns Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Og stóð eitthvað fyrir dyrum á þeim tíma sem setning fréttastjórans myndi standa? Ja bara borgarstjórnarkosningar.
Engin upphlaup urðu. Engin stóryrði. Enginn vinstrimaður sá neitt athugavert við það að eiginmaður borgarritara og auk þess fyrrverandi varaþingmaður eins R-listaflokksins myndi stýra fréttum Ríkissjónvarpsins óslitið fram að borgarstjórnarkosningum. Þá var ekki uppi krafan um að „þjóðin geti treyst fréttastofunni“. En nú hins vegar, þegar ráðinn er maður sem enginn hefur enn getað bendlað við pólitísk afskipti, þá vantar ekki hrópin. Hann er hreinlega niðurlægður á Alþingi. Það voru ekki vinstriflokkarnir sem völdu hann. Alþingismenn fara í pontu og krefjast afsagnar útvarpsstjóra.
Núna gátu vinstriflokkarnir ekki náð meirihluta í útvarpsráði og þá greiddu þeir þar ekki atkvæði – því það er úr sér gengið að útvarpsráð veiti umsögn um umsóknir, sem þó er að vísu lagaskylda útvarpsráðsmanna, eins og þeir allir vissu þegar þeir tóku þar sæti eftir síðustu alþingiskosningar.
Eða þá síðast þegar skipaður var fréttastjóri hjá Ríkissjónvarpinu. Þá mælti fagmaðurinn Bogi Ágústsson, sem nú þykir hreint hneyksli að ganga gegn, með Elínu Hirst. Fulltrúar Samfylkingarinnar í útvarpsráði greiddu þá vandræðalaust atkvæði, og ekki með þeim sem framkvæmdastjóri fréttasviðsins mælti með. Þeim datt bara ekki í hug að fara að tillögu framkvæmdastjóra fréttasviðs. Það er ekki fyrr en núna sem Samfylkingarmenn um borg og bæ finna út að það verði endilega að fara að tillögum Boga Ágústssonar, allt annað sé hrein forneskja, ætluð til þess „að eyðileggja Ríkisútvarpið“.
Og þeir fjölmiðlar sem munu rifja þetta upp? Nákvæmlega enginn. Enda allir undir stjórn fagmanna.
Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs vakti athygli á því í gær að í leiðbeiningarbæklingum Ikea um samsetningu húsgagna eru engar myndir af konum. Þótt síðar kæmi í ljós að þetta er ekki allskostar rétt hjá Bondevik skýrðu forsvarsmenn Ikea þetta með því að þeir væru að taka tillit til íslamskra hefða því bæklingnum væri meðal annars dreift til múslíma og þeir væru sumir hverjir ekki hrifnir af því að konur sæjust á myndum.
Velkomin í fjölmenningarsamfélagið.