Mánudagur 28. febrúar 2011

59. tbl. 15. árg.

L

Hvenær ætlar Steingrímur J. að upplýsa um fjárausturinn í fjármálakerfið? Fyrir eða eftir atkvæðagreiðsluna um Icesave?

árus Blöndal hæstaréttalögmaður upplýsti í Silfri Egils í gær að hann hefði kynnt sér eignir í þrotabúi Landsbankans. Það væri hans mat að þær væru varlega metnar og reikningur íslenska ríkisins vegna Icesave III yrði því jafnvel lægri en þeir 47 milljarðar sem oftast eru nefndir þessa dagana.

Það hefur hins vegar komið fram, bæði hjá Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins á fundi í Valhöll og Tryggva Þór Herbertssyni fyrrverandi sjötta til byggða, að Bretum og Hollendingum hafi verið boðin eingreiðsla upp á 47 milljarða ásamt því að fá það sem kæmi út úr hinu mikils metna en þó vanmetna þrotabúi. Þeir höfnuðu því kostaboði.

Tugmilljónaríki vilja ekki að taka áhættuna af verðbréfasafninu sem gerði Landsbankann gjaldþrota fyrir tveimur árum. En 300 þúsund Íslendingar eiga að gera það.

Lögmaðurinn nefndi einnig að íslenska ríkið væri þegar að setja stórfé í Sparisjóð Keflavíkur, Sjóvá og fleiri fyrirtæki. Það væri því ekki ný stefna þótt ríkið greiddi Icesave. Þetta heitir að rökstyðja eitt rugl með öðru. En á vitleysisgangi ríkisins gagnvart Sjóvá og SpKef annars vegar og Icesave hins vegar er sá munur að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur réttlætt ríkisstyrkina til Sjóvá og SpKef með því að peningarnir fáist mögulega til baka síðar meir. Í orði kveðnu er því nokkur munur á þessu tvennu. Peningarnir í Icesave fara beint út um opinn gluggann en hlutafé í fjármálastofnanir er sett í gluggakistuna.

Óli Björn Kárason varaþingmaður gerir annars ágæta grein fyrir aðgerðum íslenska ríkisins á fjármálamarkaði frá bankahruni í pistli á T24 í gær.

Vart er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það sé einbeittur ásetningur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að fara sömu leið og írsk stjórnvöld fóru. Almenningur skal bera skuldir banka og fjármálastofnana. Frá hruni hafa nær 100 milljarðar verði settir af almannafé inn í gjaldþrota fjármálafyrirtæki, allt frá Sjóvá til VBS og sparisjóða. Þá hefur ríkissjóður lagt liðlega 183 milljarða inn í viðskiptabankana þrjá í formi hlutafjár eða víkjandi lána. Þessu til viðbótar koma ábyrgðir sem ríkissjóður hefur gengist í sem eru langt yfir 100 milljarða króna. Og þá stendur Icesave eftir, sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa barist eins og ljón fyrir að setja á herðar Íslendinga.

Óli Björn segir að þegar almenningur átti sig á því hvílíkar fjárhæðir hafi þegar verið settar í fjármálakerfið muni hann segja hingað og ekki lengra.

Hann bendir jafnframt á að fjármálaráðherra hafi ekki svarað fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um þennan fjáraustur i gjaldþrota fjármálafyrirtæki. Fyrirspurnin var lögð fram í janúar.

Hér er því spáð að gagnsætt svar fjármálaráðherra við fyrirspurninni berist 10. apríl.

A uðheyrt var í gær að mörgum kom á óvart að knattspyrnuliðið Birmingham sigraði í úrslitaleik enska deildarbikarsins, þrátt fyrir að leika gegn liði sem er í öðru sæti deildarkeppninnar þar í landi. Þetta þurfti hins vegar ekki að koma á óvart. Í úrslitaleiknum var Birmingham eina liðið á vellinum sem ekki leikur undir stjórn Arsenes Wengers, svo bikarinn gat ekki annað farið.