U ndanfarið hefur því verið haldið fram að myntkörfulánin, sem hæstiréttur dæmdi á dögunum að hefðu í raun verið lán í íslenskum krónum, hafi verið nokkurs konar dauðagildra sem bankarnir lögðu fyrir grandvara góðborgarna og fyrirmyndar fyrirtæki. En hvers vegna buðu fjármálafyrirtæki fólk lán í erlendri mynt? Jú fólk og fyrirtæki óskaði eftir þeim.
Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá því að hinn 19. febrúar 2007 ári fjallaði Morgunblaðið um fjármál fjölskyldunnar. Blaðið leitaði ráða hjá Vilhjálmi Bjarnasyni viðskiptafræðingi, húsbyggjanda og formanni félags fjárfesta um hvaða húsnæðislán væru nú heppilegust. Um lán í erlendri mynt sagði Vilhjálmur
Mér finnst hræðsluáróður íslensku bankanna um að Íslendingar verði að hafa tekjur í erlendum myntum undarlegur því öll höfum við tekjur í íslenskum krónum sem fylgja erlendum myntum þegar til lengri tíma er litið. Þær leiðbeiningar bankanna um að viðkomandi lántakandi verði að hafa tekjur í erlendum gjaldeyri til að geta tekið erlent lán eru að hluta til réttar, en byggjast á því að viðkomandi einstaklingur sé asni. Sá hinn sami hlýtur að geta stýrt fjármálum sínum og notfært sér í ofanálag lægri vexti í erlendum myntum en bjóðast hér heima. |
Svona lét formaður félags fjárfesta í bönkunum. Ef bankarnir veita ekki erlend lán í allar áttir eru þeir að segja að viðskiptavinir þeirra séu asnar.Vilhjálmur ráðlagði fólki að taka lán í svissneskum frönkum.
Svissneski frankinn stendur í dag sterkur og gæti því lækkað og vextir eru fremur lágir. Mér sýnist að ef ég yrði svo fyrir 7-8% áfalli myndi ég vinna það upp á einu til tveimur árum miðað við það að taka lán í íslenskum krónum og hugsanlega hafa ávinning eftir það. Gengistryggð lán eru hugsanlega léttari af því gefnu að menn taki lánin á réttum tíma, en þá þurfa þeir að gera svona stúdíu, eins og ég er nýlega búinn að gera á lánamarkaðnum fyrir mig persónulega. |
Rúmu ári síðar hafði svissneski frankinn ekki hækkað um 7-8% gagnvart íslensku krónunni heldur 78%. Vilhjálmur talaði um að 7-8% væri áfall. Hvað segir hann þá um 78%, Þetta eru einhver verstu ráð sem íslenskum almenningi hafa verið veitt í fjármálum. Þeir sem fóru að ráðum Vilhjálms Bjarnasonar – gegn ráðum bankanna – hafa verið í hrikalegum vandræðum síðan.
Og ekki hafði viðskiptamenntaður formaður félags fjárfesta nokkra athugasemd við lögmæti gengistryggðra lán, ekki fremur en löglærður talsmaður neytenda sem einnig tók slíkt lán til fasteignakaupa.