Helgarsprokið 25. júlí 2010

206. tbl. 14. árg.

K anadíska orkufyrirtækið Magma Energy keypti á dögunum íslenska orkufyrirtækið HS Orku sem var þó ekki íslenskara en svo að stór hluti fjármögnunar þess var í erlendri mynt við erlenda banka. Með kaupunum voru skattgreiðendur lausir allra mála vegna fyrirtækisins en fyrri eigendur höfðu lent í fangi ríkisins eins og svo margt annað hér á landi undanfarin misseri en þeir sem hafa stýrt ríkinu hafa verið mjög duglegir að grípa. Við kaupin var því skorið á alla hugsanlega ábyrgð skattgreiðenda á HS Orku sem er annað er sagt verður til að mynda um Orkuveitu Reykjavíkur. Útsvarsgreiðendur í Reykjavík bera óbeina ábyrgð á gríðarlegum skuldbindingum hennar þótt vitanlega séu þar miklar eignir á móti.

Oddvitar stjórnarflokkanna hafa marglýst því að mikilvægt sé að leysa ýmis mál, sér í lagi Icesave málið, svo Íslendingar verði á ný gjaldgengið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og geti sótt sér lánsfé. Nú hamast hins vegar þingmenn stjórnarflokkanna gegn því að erlent félag leggi fé í atvinnurekstur á Íslandi. Þeir bera því meðal annars við að arðurinn af orkuvinnslu hér á landi eigi að renna til þjóðarinnar eða einhvers álíka óljóss viðtakanda. Hvaða arður spyr nú Vefþjóðviljinn? Er eitthvað sjálfgefið að orkuvinnsla hér á landi skili arði? Eins og dæmin sanna getur brugðið til beggja vona í þessum rekstri sem öðrum. Hvaðan rennur arðurinn af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur um þessar mundir? Eru það ekki fyrst og fremst erlendir bankar sem hafa tekjur af fyrirtækinu um þessar mundir?

Það er svo sérstakt umhugsunarefni að þeir sem mest hamast gegn því að erlent einkafyrirtæki fái að eiga HS Orku eru að því er virðist þeir sem hafa verið óhamingjusamastir með eign íslenska ríkisins á Landsvirkjun. Nánar tiltekið þá er þessi hópur alveg á móti því að aðrir en ríkið eigi orkufyrirtæki. En er svo óánægður með allt sem ríkið og aðrir opinberir aðilar hafa gert með þessi fyrirtæki áratugum saman.

Kannski á þessi hópur eftir að botna kenninguna sína með því að taka fram að hann vilji að ríkið fari í einu og öllu eftir sínum hugmyndum um hvernig reka eigi orkufyrirtæki. Ef til vill sér þessi hópur það fyrir sér að hann og ríkið verði eitt.

Ekki síðri mótbárur gegn kaupum Magma er að fyrirtækið hafi stofnað “skúffufyrirtæki” í Svíþjóð til að geta keypt íslenskt orkufyrirtæki en Svíþjóð er á EES svæðinu svonefnda. Aðrir en hafa aðsetur á svæðinu geta ekki keypt íslensk orkufyrirtæki. Ekkert er þó sagt um það í EES samningum hvort slíkt félag á að vera í skúffu eða skrifstofu. Magma stofnaði þetta sænska félag til að fullnægja hinum undarlegu skilyrðum hins Evrópska efnahagssvæðis. En það er mjög evrópskt að þegar menn semja um fríverslun er það í raun bara tvíverslun, verslun okkar í milli. Aðrir eru lokaðir úti.