Þ egar Icesave-ánauðin var til meðferðar á alþingi drógu stjórnarþingmenn og samherjar þeirra ekki af sér við að reka á eftir. Rök voru fá þeirra megin í málinu, en í staðinn var hamrað á því að málið mætti bara alls ekki dragast. Allt færi í kaldakol ef því lyki ekki endanlega fyrir 23. október, fyrir 30. nóvember, fyrir jól og loks mátti það alls ekki dragast fram yfir áramót. Í því væri gríðarleg hætta fólgin, svo þingið kom saman milli jóla og nýárs, talað var fram á nótt og þinghaldi lauk ekki fyrr en gamlársdagur var genginn í garð. Málið mátti ekki dragast.
Þegar leið að lokum málsmeðferðar á alþingi kom hins vegar mikill kippur í þá undirskriftasöfnun þar sem krafist er þjóðaratkvæðis um málið. Ekki er vafi að bein sjónvarpsútsending lokakvöldsins, þar sem landsmenn gátu frá fyrstu hendi kynnt sér röksemdir beggja, átti mikinn þátt í því. Skyndilega höfðu yfir 45.000 manns krafist þjóðaratkvæðis.
Þá skyndilega varð ekki sama nauðsyn að ljúka málinu á stundinni, fyrir áramót. Sá fáheyrði atburður varð á ríkisráðsfundi að tilkynnt var að forseti Íslands hefði tekið sér umhugsunarfrest áður en hann staðfesti lögin. Skyndilega höfðu ráðherrar engar áhyggjur af frestun málsins, og voru þó áramótin yfirvofandi. Í gang fór mikill spuni um að nú gæti allt farið norður og niður færi málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og hafa ríkisfjölmiðlarnir ekki dregið af sér. Er til dæmis vandlega valið hvað tekið er úr erlendum blaðafregnum um málið og þannig gefin mjög einhliða mynd af því hvernig þar sé talað. Er greinilega ætlunin að reyna að þyrla upp nægu ryki til að hægt sé að staðfesta lögin með óljósri vísan í alvarlegar afleiðingar, en augljós vilji gríðarlegs fjölda Íslendinga, um að fá sjálfur að taka þessa risastóru ákvörðun, gleymist í stundarrykinu.
Þegar við völd er alræmdasti spunaflokkur allra tíma, þá mátti við þessu búast.
E itt er það sem fáir virðast gera sér grein fyrir: Forseti Íslands er þegar búinn að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Ef menn líta svo á, að synjunarvaldið sé hjá forseta persónulega, þá er ljóst að honum ber að samþykkja eða hafna tillögu ráðherra um staðfestingu laga. Hann hefur enga heimild til að taka sér neinn frest í því sambandi.
Í 26. grein stjórnarskrárinnar segir: „Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“
Hérna er þess gætt að forseti getur ekki tafið gildistöku samþykktra laga. Hann getur synjað þeim staðfestingar og verður þá að leita staðfestingar meðal almennra kjósenda, en lögin taka strax gildi við synjun forseta. Þegar synjun forseta frestar ekki gildistöku laga, þá er ljóst að „umhugsunarfrestur“ hans gerir það ekki heldur, hvort sem forseti segist ætla að taka sér umhugsunarfrest í eitt ár, mánuð, „fram yfir áramót“, eða í óákveðinn tíma.
Ráðherra lagði til á ríkisráðsfundi að forseti staðfesti lög sem alþingi hafði samþykkt. Forseti varð ekki við því. Þetta er aðalatriði málsins.
Að því gefnu að ríkisstjórnin vilji að lögin standi ber henni samkvæmt stjórnarskrá að hefja þegar undirbúning að því að bera þau undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu.