Hér hefur áður verið vikið að því að á síðustu árum hafa útgjöld ríkisins aukist meira enn nokkru sinni fyrr. Gildir einu hvor mælikvarðinn er notaður, krónur eða hlutföll. Er nú svo komið að í hvert sinn sem útgjöld til einhvers málsins eru ekki aukin stórkostlega milli ára tala menn um niðurskurð og að vegið sé að málaflokknum. Árið 1997 voru ríkisútgjöldin 175 milljarðar króna (verðlag 2001) en stefna á næsta ári í 273 milljarða króna ef marka mætti nýtt frumvarp til fjárlaga. Því miður er það líklega vanætlað því reynslan kennir mönnum að margir þingmenn eru fundvísir á fleiri „góð mál“. Þessi mál eru svo góð að almenningur vill ekki styrkja þau með frjálsum framlögum heldur þarf að neyða hann til þess með skattheimtu.
Vafalaust hafa glöggir lesendur þegar áttað sig á hvaða áfanga menn ná að öllum líkindum á næsta ári. Á næsta ári hafa ríkisútgjöldin aukist um 100 milljarða króna – 100.000.000.000 krónur – frá því síðast var skipt um fjármálaráðherra. Það er rétt að undirstrika að hér um að ræða aukin útgjöld á ári en ekki yfir öll sex árin. Útgjöldin árið 2004 verða 100 milljörðum króna hærri en árið 1997.
Þrátt fyrir að svo hrapalega hafi tekist til við að stýra útstreyminu úr ríkissjóði hefur ríkissjóður engu að síður verið rekinn með afgangi stærstan hluta þessa tímabils. Kemur þar til ævintýraleg tekjuaukning ríkissjóðs á einu mesta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Þessi afgangur hefur meðal annars verið nýttur til að gera upp gamlar syndir. Hafa skuldir ríkissjóðs lækkað verulega síðustu árin og þar með vaxtagjöldin sem ríkið þarf að greiða. Árið 1995 voru heildarskuldir ríkissjóðs yfir 50% af vergri landsframleiðslu en eru um 30% nú. Jafnframt hefur verið gengið í að aftengja tímasprengju sem falin var í lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs gagnvart starfsmönnum sínum.
Þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs á miðvikudaginn ræddi hann nokkuð um „ríflegt svigrúm til skattalækkana“ á árunum 2005 til 2007 og voru 20 milljarðar króna nefndir í því sambandi. Þar er þá væntanlega átt við um 6 til 7 milljarða í skattalækkanir þar sem þessir 20 milljarðar deilast á þrjú ár. Raunar var þetta svo óljóst og illa fram sett hjá fjármálaráðuneytinu að það má furðu sæta ef enginn fjölmiðill reynir að komast til botns í því hvað ráðuneytið var að reyna að segja. Það ræður úrslitum um hvort stjórnarflokkarnir hyggjast standa við kosningaloforð sín um skattalækkanir. Jafnvel þótt um væri að ræða 20 milljarða á ári – og stjórnarflokkarnir færu þar með nærri því að standa við kosingaloforð sín – væri aðeins verið að skila broti af þeim ávinningi sem ríkissjóður hefur haft af stækkandi skattstofnum á síðustu árum. Skattgreiðendur hafa skilað 100 milljörðum í auknar árvissar tekjur til ríkissjóðs og ef skilningur Vefþjóðviljans á skilaboðum með fjárlagafrumvarpinu er réttur ætlar ríkisstjórnin af rausnarskap sínum að lækka skatta um 6 til 7 milljarða – eftir nokkur ár.
Enda sagði fjármálaráðherrann aðeins að það væri ríflegt svigrúm til skattalækkana en ekkert um að það yrði nýtt.