Fyrir réttu ári leyfði Vefþjóðviljinn sér að gera nokkrar sparnaðartillögur við frumvarp til fjárlaga ársins 2003. Voru það tillögur upp á 30 milljarða króna sparnað sem hefðu dugað til að lækka tekjuskatts- og útsvarshlutfall einstaklinga úr 38 í 24% miðað við óbreytt skattleysismörk. Ekki var um neinn sparnað í velferðarkerfinu að ræða nema gert var ráð fyrir að fæðingarorlof til foreldra yrði á nýjan leik 70 þúsund krónur á mánuði en í níu mánuði og foreldrar geti ráðstafað því að vild í stað þess að það sé tekjutengt og foreldrum skipað fyrir um skiptingu þess. Það er þó hjákátlegt að kalla þetta sparnað í velferðarkerfinu því með þessu væri einkum verið að minnka greiðslur frá Tryggingastofnun til þeirra sem síst þurfa á þeim að halda.
Ekki er hægt að segja að þingmenn hafi hlaupið eftir þessum tillögum í einu og öllu. Útgjöld ríkisins munu að öllum líkindum hækka milli ára. Ríkið mun áfram fjármagna ríkissáttasemjara, jafnréttisstofu, sendiráð í Mapúto, Samtök iðnaðarins, byggðastofnun og manneldisráð svo nokkuð sé nefnt. Þó vill Vefþjóðviljinn ekki játa sig gjörsigraðan í þessu máli. Litlu verður vöggur feginn. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er nefnilega lagt til að niðurgreiðsla ríkisins á viðbótarlífeyrissparnaði verði afnumin en það var einmitt ein sparnaðartillaga Vefþjóðviljans í fyrra.
Það er ekki nóg með að þeir sem spara með svonefndum viðbótarlífeyrissparnaði eigi kost á því að fresta greiðslu tekjuskatts af sparnaði sínum til efri ára heldur hefur ríkið greitt 10% meðlag með sparnaðinum. Þetta meðlag hefði kostað ríkið um 500 milljónir króna á næsta ári. Þeir sem spara með viðbótarlífeyrissparnaði hafa þannig notið styrkja frá þeim sem spara með öðrum hætti. Og já það er til annar sparnaður en sá sem ríkið mælir sérstaklega með. Sumir leggja allt sitt fé í atvinnurekstur, aðrir greiða húsnæðislán sín hraðar niður en gengur og gerist og svo mætti lengi telja. Að þeim ógleymdum sem vilja bara eyða því strax sem aflast en ríkið er víst ekki eitt um það.