Laugardagur 15. ágúst 2009

227. tbl. 13. árg.

Þ ví verður ekki trúað að álit meirihluta fjárlaganefndar um Icesave-ánauðina verði afgreitt á Alþingi með atkvæðum annarra en þingmanna stjórnarflokkanna. Framsóknarflokkurinn heldur enn haus í málinu, aldrei þessu vant, og Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að átta sig yfir helgina.

Þeir „fyrirvarar“ sem fjárlaganefnd leggur til að gerðir verði, eru hlægilegir. Ekki þó eins hlægilegir og þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem nú tala eins og þeir séu bara nokkuð sáttir.

Það er útilokað að nokkur sæmilegur þingmaður samþykki ríkisstjórnarfrumvarpið, með þessum „fyrirvörum“.

Að vísu hefur þingflokki Sjálfstæðisflokksins verið einstaklega mislagðar hendur síðustu mánuði, svo kannski ætti ekki að útiloka neitt. En, svo það sé sagt beint út, heimskan sem hann myndi sýna með því að samþykkja Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar væri meiri en svo að hægt sé að ætla honum það fyrirfram.

Það þarf engum að koma á óvart að þingmenn Samfylkingarinnar leggist flatir fyrir stórum evrópskum ríkjum, hvenær sem þau byrsta sig.

Það þarf engum að koma á óvart þó þingmenn vinstrigrænna leggist flatir fyrir Samfylkingunni, þegar Samfylkingin spyr hvort þeir hati ekki örugglega Sjálfstæðisflokkinn.

Það þarf engum að koma neitt á óvart með Borgarahreyfinguna.

Það þarf engum að koma á óvart þó Morgunblaðið hamist með Icesave-ánauðinni. Blaðinu var beitt fyrir Samfylkinguna en gegn Sjálfstæðisflokknum í síðustu kosningabaráttu, því var beitt af krafti fyrir Evrópusambandsinngöngu og til að ala á klofningi innan Sjálfstæðisflokksins í því máli, og í sumar hefur það barist fyrir auðsveipri samþykkt icesvae-ánauðarinnar, og það áður en nokkur fór að tala um „fyrirvara“.

Það þarf engum að koma á óvart þó „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hafi í málinu starfað sem kynningarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hvers kyns Samfylkingarspuni hefur þar dunið á áheyrendum, uppfærður milli fréttatíma, og verið kynntur sem nýjasta nýtt af stöðu málsins.

Ekkert af þessu þarf að koma á óvart.

En ef eitthvað er að marka fréttir gærkvöldsins þá er hugsanlegt að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi á óvart með því að greiða ekki eindregið atkvæði gegn Acesave-ánauðinni þegar hún verður afgreidd á Alþingi.

En hver sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greiðir ekki atkvæði gegn Icesave-ánauðinni, með eða án „fyrirvara“, hann á þegar í stað að ganga til liðs við Samfylkinguna. Hér með býðst Andríki til að greiða fyrir hann félagsgjöldin þar, fram að næstu alþingiskosningum.