Þriðjudagur 1. janúar 2008

1. tbl. 12. árg.

E

ins og undanfarin ár gera formenn þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi landsmönnum grein fyrir helstu hugðarefnum sínum í pistli í Morgunblaðinu á gamlársdag. Vefþjóðviljinn hefur gert þessum greinargerðum skil undanfarin ár enda jafnan mátt finna þar ýmislegt bitastætt, bæði fyrir sælkera og hælbíta. Að þessu sinni virðast formennirnir hafa ákveðið að nota þennan vettvang til að renna stoðum undir þá ákvörðun að takmarka þurfi ræðutíma þingmanna í þingsalnum. Þessum eina sal landsins hefur þó þann eina tilgang að þar geti menn lýst skoðunum sínum. Þeir sem hafa ekkert fram að færa þurfa auðvitað engan tíma til þess – nema auðvitað vinstri grænir.

Greinar formannanna bera þess skýr eða öllu heldur óskýr og þokukennd merki að íslensk stjórnmál eru í millibili. Þetta bil gæti hins vegar orðið lengra en mörg slík. Ríkisstjórnin hefur mikinn meirihluta og verður vart felld af stjórnarandstöðu Framsóknarflokks og vinstri grænna. Þegar hún fer frá verður það ákvörðun annars stjórnarflokksins. Hún mun falla fyrir eigin hendi. Ýmsir hafa haft ánægju af að spá því fyrr en síðar. Það fylgir jafnan spánni að það verði formaður Samfylkingarinnar sem slær stjórnina af. Af áramótalýsingu formanns Framsóknarflokksins á viðskilnaði sjálfstæðismanna við síðustu ríkisstjórn ætti Sjálfstæðisflokkurinn þá þann kost einan að mynda stjórn með vinstri grænum. En hversu líklegt er að til slíkra slita komi á meðan Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eru í forystu Sjálfstæðisflokksins? Verður ekki að gera ráð fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gjaldi þeim einstæða pólitíska lífgjöf síðasta vor með öðrum hætti?

Ólíkt fyrri árum eru skattalækkanir vart nefndar í áramótapistlum formannanna. Formaður Sjálfstæðisflokksins getur þeirra þó í upptalningu á því sem standi í stjórnarsáttmála. Eins og menn vita bindur sáttmálinn skattalækkanir engum fastmælum. Þeirra er getið almennum orðum. En kannski er jafngott að engu er lofað því þá verður minna svikið. Fyrir réttu ári dugðu hvorki loforð né lögfesting til að skattgreiðendur fengju 2% lækkun á tekjuskatti. Formaður Samfylkingarinnar minnist þeirra heldur ekki einu orði í pistli sínum. Þetta áhugaleysi formanna stjórnarflokkanna um skattalækkanir er sérlega alvarlegt því skattgreiðendur eiga sér engrar bjargar að vænta frá stjórnarandstöðunni þótt Framsóknarmenn megi eiga það að þeir hafa reynt að vekja athygli á útgjaldaþenslunni í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. En litlar voru tillögur þeirra um sparnað og skattalækkanir. Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins leynir þeim líka vel í áramótapistli sínum.

Vegna mikillar veltu í verslun og viðskiptum og þrátt fyrir hreint ótrúlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs er mikill afgangur ráðgerður á fjárlögum. Hvenær komast skattalækkanir á dagskrá ef ekki nú? Það hafa allir fengið allt úr ríkissjóði, blessað „ár kartöflunnar“ ekki undaþegið, en samt er tekið meira meira og meira af skattgreiðendum. Af því bara. Hvað þarf eiginlega til að forysta stjórnarflokkanna fái þá hugmynd að lækka skattana?