S
Fullyrðingar SÁÁ um að dauðsföllum fjölgi um 50 á ári verði sala á áfengi leyfð í matvöruverslunum eiga sér enga stoð í veruleikanum. |
amtök áhugamanna um áfengisvandamálið (SÁÁ) þiggja umtalsvert opinbert fé árlega til starfsemi sinnar. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir 602 milljóna króna greiðslum til samtakanna. Samtökin beita sér oft með afgerandi hætti í þjóðfélagsumræðum undir forystu stjórnarformanns, framkvæmdastjóra og yfirlæknis. Þessum mönnum, sem allir heita Þórarinn Tyrfingsson, þykir stundum ástæða til að hafa vit fyrir fullorðnu fólki hvort sem það kann fótum sínum forráð eða ekki.
Í síðustu viku boðaði SÁÁ að afnám ríkiseinkasölu áfengis myndi hafa skelfilegar afleiðingar. Eftir því sem næst verður komist gengur röksemdafærsla SÁÁ út á að í tiltekinni rannsókn hafi fengist þær niðurstöður að í Svíþjóð myndi áfengisneysla aukast um 14% ef áfengi yrði selt í sérverslunum sem ekki væru í eigu ríkisins. En um 29% ef salan færi fram í matvöruverslunum. Í framhaldinu er svo fullyrt að við 29% aukningu áfengisneyslu myndi þeim sem deyja vegna áfengisneyslu fjölga um 1500 og líkamsárásum um 14.200. Þessar tölur vill SÁÁ svo heimfæra á Ísland og segir að verði sala áfengis leyfði í matvöruverslunum fjölgi þeim sem deyja vegna áfengisneyslu um 50 og líkamsárásum um 450.
Í greininni á vef SÁÁ er vísað til rannsókna Harold D. Holder og fleiri. Á vef Holders má finna vísindagreinar eftir hann. Vefþjóðviljanum tókst ekki að finna þar upplýsingar um hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að sala áfengis í matvöruverslunum í Svíþjóð muni leiða til aukningar áfengisneyslu um 29%. SÁÁ mun eflaust fljótt og vel svara því hvernig sú niðurstaða er fengin. Hins vegar er á síðunni vísað í grein sem nefnist Estimates of harm associated with changes in Swedish alcohol policy: results from past and present estimates eftir Sven Andreasson og fleiri. sem birtist í tímaritinu Addiction í ágúst 2006. Í greininni er sett fram líkan til að meta áhrif aukinnar áfengisneyslu á ýmsa þætti þjóðfélagsins og virðist sem þetta líkan sé einnig notað í rannsókninni sem SÁÁ vísar til. Líkanið spáir því til dæmis að aukist áfengisneysla um 10% (um 1 lítra á mann í Svíþjóð) þá muni um 30% fleiri karlar deyja vegna áfengisneyslu en ella. Er það sennileg niðurstaða? Því er raunar svarað í greininni þar sem borin er saman spá líkansins um dauðsföll vegna áfengisneyslu og raunverulegar tölur fyrir árin 1994 til 2002.
Myndin að ofan sýnir fjölda karla sem dóu af hverjum 100 þúsund í Svíþjóð 19942002 og er tekin úr fyrrnefndri grein Andreasson. Svörtu hringirnir eru raunverulegar tölur og virðist tíðni þessara dauðsfalla heldur vera minnkandi. Spá samkvæmt líkani Holders er hins vegar efsti ferillinn með tíglum. Spáin á sér enga stoð í veruleikanum.
Fullyrðingar SÁA um þá ógæfu sem sala áfengis í matvöruverslunum hefði í för með sér virðast því úr lausu lofti gripnar. Ekki er að efa að stjórnarformaður SÁÁ mun taka þetta mál upp á næsta fundi sínum með framkvæmdastjóra og yfirlækni og síðan muni þeir skýra mál sitt frekar eða draga til baka þessar fullyrðingar sem skaðað hafa umræðu um hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvöruverslunum.